Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fyrirhugaða sameiningu Skattsins og skattrannsóknarstjóra í með nýju frumvarpi á samráðsgátt stjórnvalda í dag. Samkvæmt tilkynningu Stjórnarráðsins um málið á frumvarpið að styrkja baráttu hins opinbera gegn skattsvikum, en það byggir á fyrri dómum mannréttindadómstóls Evrópu gegn íslenska ríkinu.
Frumvarpið byggir á skýrslu sem nefnd, sem skipuð var um rannsókn og saksókn skattalagabrota, skilaði til ráðherra í september í fyrra. Nefndin var skipuð í kjölfar þess að mannréttindadómstóll Evrópu hafði dæmt íslenska ríkið brotlegt í slíkum málum.
Eitt þeirra mála snýr að Bjarna Ármannssyni, fyrrverandi forstjóra Glitnis, sem dæmdur var fyrir skattalagabrot af Hæstarétti. Bjarni áfrýjaði málið til mannréttindadómstólsins, sem komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hafði brotið á mannréttindi hans með því að gera honum að greiða skattaálag og síðar ákæra hann og dæma hann fyrir skattalagabrot, þrátt fyrir að Bjarni hefði þegar greitt skuld sína við skattinn.
Í frétt Stjórnarráðsins segir að skýrsla nefndarinnar í fyrra hafi leitt til bráðabirgðaákvæða í skattalögum, auk þess sem vinnuhópi var komið á fót sem ætlað var að smíða drög að frumvarpi á grundvelli þessarar skýrslu. Vinnuhópurinn hefur nú lokið störfum og skilað frumvarpi til ráðherra.
Í frumvarpinu er lagt til að embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins verði sérstök eining innan Skattsins, sem sameinist embætti ríkisskattstjóra. Einnig eru þar aðrar tillögur, t.a.m. um að gera rannsóknir í kjölfar skattalagabrota gagnsærri og skilvirkari, auk þess sem málsmeðferðartími er styttur og málsmeðferð einfölduð. Þar að auki er lagt til að álagi verði ekki beitt samhliða stjórnvaldssektum eða refsingum vegna skattalagabrota.