Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherrann, Katrínu Jakobsdóttur, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort hún væri sammála þeim orðum Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra að talsmenn öryrkja græfu „undan getu okkar til að styðja við þá sem eru í mestri þörf“ eða treysti hún sér til að taka undir það að öryrkjar ættu betra skilið en „þennan skæting“.
Vísaði Logi þarna í deilur fjármálaráðherra og Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) í síðustu viku. Mótmælti meðal annars formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, orðum og fullyrðingum ráðherra um öryrkja.
Er Katrín sammála eigin orðum?
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Þetta sagði hæstvirtur forsætisráðherra í þessum stól árið 2017, þá þingmaður í stjórnarandstöðu og ég er henni hjartanlega sammála. Engu að síður býr stór hópur öryrkja og aldraðra við skammarlega lág laun. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt rannsóknum Hagstofunnar og bilið milli lífeyris og lágmarkslauna heldur áfram að breikka.
Þannig hefur biðin eftir réttlæti sem hæstvirtur forsætisráðherra talaði um árið 2017 bara lengst. Ekki nóg með það. Nú þegar Öryrkjabandalag Íslands stendur fyrir kraftmikilli baráttu fyrir bættum kjörum berast kaldar kveðjur frá ríkisstjórn Íslands, pillur frá fjármálaráðherra sem sakar talsmenn öryrkja um ábyrgðarleysi og hótar því að fjölgun fólks með skerta starfsgetu verði látin bitna á þeim sem nú þegar eru á örorkulífeyri. Þetta dæmir sig sjálft,“ sagði Logi.
Hann spurði Katrínu hvort þetta væri í alvöru stefna ríkisstjórnar Íslands.
Logi spurði hvort Katrín væri ekki sammála eigin orðum um að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. „Ég spyr einnig hvort hún komi ekki með okkur í það að bretta upp ermarnar núna, draga úr skerðingum og tryggja að lífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lægstu launa samkvæmt lífskjarasamningum?“
Stendur enn við orð sín
Katrín svaraði og þakkaði Loga fyrir að vekja máls á kjörum þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu. „Hann vitnaði í mín orð 2017 sem ég stend enn þá við, enda hafa fjölmargar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili endurspeglað nákvæmlega þessa áherslu, aðgerðir sem háttvirtur þingmaður hefur stutt hér í þessum sal, eðlilega. Þá vil ég sérstaklega nefna breytingar á tekjuskattskerfinu þar sem ráðist var í aðgerðir sem koma hinum tekjulægstu best.
Ég vil tala um hækkun barnabóta sem skiptir verulegu máli, sérstaklega fyrir tekjulágar barnafjölskyldur, þar sem dregið var úr skerðingunni króna á móti krónu í sérstakri framfærsluuppbót og til þess varið 2,5 milljörðum að frumkvæði hæstv. félags- og barnamálaráðherra, þar sem gripið hefur verið til sérstaks félagslegs viðbótarstuðnings við þá í hópi aldraðra sem höllustum fæti standa, þar sem ráðist hefur verið í að draga mjög markvisst úr kostnaði fólks í heilbrigðiskerfinu, öryrkja, aldraðra, barna. Og hæstv. heilbrigðisráðherra sté löngu tímabært skref í að draga úr tannlæknakostnaði sem hv. þingmaður, eins og ég, var spurður að fyrir síðustu kosningar og svaraði að hann vildi stíga stór skref,“ sagði hún.
Ekki sammála Loga að Bjarni hafi haft í hótunum
Katrín sagði mörg mikilvæg skref hafa verið stigin til þess að efla velferðina í þessu samfélagi og auka jöfnuð.
„Ég kannast ekki við það þegar háttvirtur þingmaður ræðir hér að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi haft í hótunum. Það tel ég ekki vera. Ég er ekki sammála háttvirtum þingmanni um að þannig eigi að skilja orð hæstvirts ráðherra sem benti hins vegar á að framlög til þessa málaflokks hafa vaxið jafnt og þétt á síðustu árum, ekki síst þegar ráðist var í breytingar á almannatryggingakerfinu sem vissulega átti fyrst og fremst við eldri borgara. Þá er ég að vísa í breytingarnar 2016, sem við höfum oft rætt hér, en sömuleiðis vegna fjölgunar í þessum hópi,“ sagði Katrín í svari sínu.
Vonbrigði að Katrín geti ekki tekið dýpra í árinni
Logi steig aftur í pontu og sagði að fjármálaráðherra hefði í síðustu viku svarað með skætingi „og ég kalla það ekkert annað en hótun það sem hann sagði. Það eru mér ákveðin vonbrigði að hæstvirtur forsætisráðherra geti ekki tekið dýpra í árinni undir þá kröfu okkar að laun öryrkja og ellilífeyrisþega fái að fylgja almennri launaþróun í landinu og tekið sé mið af lífskjarasamningum, líkt og gert var þegar hún sat í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um árið. Hér hafa fjölmargar aðgerðir leitt til framfara.“
Hann sagði það rétt hjá forsætisráðherra að hann hefði stutt þær margar og muni gera það áfram, öll góð mál. „Ég kalla hins vegar eftir því hvort ekki sé eðlilegt að með almennum hætti sé tryggt að lífeyrir fylgi launaþróun samkvæmt lífskjarasamningunum. Annars er tómt mál fyrir ríkisstjórnina að vera að slá um sig með orðum eins og lífskjarasamningur þegar hann nær bara til hluta samfélagsins,“ sagði Logi.
Verða þá bara að vera ósammála
Í seinni ræðu Katrínar sagði hún að þau Logi myndu þá „bara að vera ósammála um þá hluti, því að ég held að það sé einmitt mikilvægt að við ræðum þessi mál annars vegar út frá markmiðunum, sem ég tel að við háttvirtur þingmaður séum sammála um, þ.e. að við viljum auka jöfnuð í samfélaginu og teljum það vera mikilvægan hluta af velgengni íslensks samfélags hversu mikill jöfnuður hefur í raun verið og við eigum að hafa það í huga í öllum okkar aðgerðum.
En ég held að við þurfum líka að horfa á gögnin sem liggja undir. Til að mynda þegar við skoðum tekjusöguna, sem ég vitnaði í áðan, þá sýnir hún mjög glögglega að það er ekki rétt að mínu viti að tala um aldraða og öryrkja sem einn hóp. Þar hefur tekjuþróun verið mjög ólík milli hópa, en ekki síst er eignastaða þessara hópa mjög ólík. Þess vegna held ég að við þurfum að ræða þessa hópa aðskilið. Við þurfum að horfa á stóra markmiðið: Hvernig getum við náð auknum jöfnuði? Ég nýtti mitt fyrra svar hér til að benda á allar þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í og fleirum eigum við von á, eins og hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra hefur boðað. En ég tel líka að það sé mikilvægt að við horfum á þær aðgerðir út frá því hvernig við viljum þróa þetta kerfi til framtíðar. Ég held að Alþingi megi ekki skorast undan því verkefni sem fram undan er,“ sagði Katrín að lokum.