„Við verðum að berjast. Við verðum að halda áfram og við vitum það. Við þekkjum lífið, við erum lífsreyndar manneskjur og við gefumst ekki upp svo glettilega – en það tekur í.“
Þetta sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, á fundi almannavarna í morgun.
Alls greindust 29 smit innanlands í gær, þar af voru 20 í sóttkví eða 71 prósent. Á landamærunum greindust 9 smit.
Áfallið á Landakoti náði til eldra fólks
„Mig langar sérstaklega að tala til ykkar sem eldri eru. Þetta haust ætlar að reynast okkur töluvert erfitt og þess vegna skiptir máli að fá að koma og hvetja ykkur til dáða og um samheldnina sem skiptir öllu máli.
Þessi hluti veirunnar ætlar að vera okkur líka mun erfiðari. Það eru núna yfir 209 sem eru yfir 60 ára aldri – það er mun hærra en það var í vor sem segir okkur að áfallið á Landakoti hefur náð verulega til eldra fólks,“ sagði Þórunn.
Hún benti á að margt væri hægt að gera til að létta lífið þessa dagana. „Það eru biðraðir í mörgum búðum. Þið þurfið að hugsa fyrirfram. Fara helst snemma í matvöruverslun og panta jafnvel vörur á netinu.“
Þekkja tímana tvenna
Þórunn skoraði jafnframt á eldra fólk að geyma þau erindi sem ekki skipta máli í bili. „Bara salta þau á blaði og eiga þau til góða þegar við förum að mega hreyfa okkur aðeins meira. En við megum ekki gleyma að fara út. Við megum ekki gleyma að fara og hreyfa okkur. Það skiptir alveg höfuðmáli.“
„Þessi stóri hópur, þessi 45.000 manna hópur rúmlega, sem er yfir sextugt, er sterkur hópur og duglegur. Hann er ótrúlega seigur og hann skiptir höfuðmáli í okkar samfélagi.
Og við þekkjum tímana tvenna. Margt af okkar fólki lifði af og lifði í kreppunni '30 og '31. Margir muna skömmtunarseðla. Þegar ég var barn man ég eftir skömmtunarseðlum og ég man að mamma beið í biðröð eftir að kaupa kjólefni. Við erum ekki í neinu slíku, þrátt fyrir kreppu. Við þurfum þess vegna að vera sterk og við verðum sterk – og ég ætlast til þess að fjölskyldur standi saman og hlúi að sínu fólki.“
Hægt að gera kraftaverk í að rjúfa einmanaleika með því að vera virk í að hjálpa öðrum
Þórunn kallaði eftir fleiri símavinum en hún sagði á fundinum að þeir væru að gera ótrúlega fína hluti. „Við getum gert kraftaverk í að rjúfa einmanaleika með því að vera virk í að hjálpa öðrum. Ég held að við þurfum að bretta upp ermar og fara í þetta. Það er gefandi að vera sjálfboðaliði.“
Hún hvatti fólk líka til að forðast leiðinlegar fréttir, sérstaklega fyrir svefninn. „Það er gott að fara í hugleiðslu og reyna að anda djúpt,“ sagði hún. „Jákvæðnin kemur okkur yfir þetta fram yfir miðjan nóvember og þá tökumst við á við hvað kemur næst. Við ætlum að vera sterk og leysa þetta saman.“