Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn hagnaðist um átta milljónir króna á þriðja ársfjórðungi en hefur tapað alls 402 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2020. Hagnaður félagsins á sama tíma í fyrra var 384 milljónir króna, en helgaðist að uppistöðu af einskiptistekjum vegna sölu á á færeyska félaginu Hey upp á 817 milljónir króna í byrjun árs í fyrra. Sýn tapaði 1,7 ,milljarði króna á árinu 2019 og hefur því tapað um 2,1 milljarði króna frá byrjun síðast árs.
Þetta má lesa út úr árshlutareikningi Sýnar vegna reksturs félagsins frá byrjun árs og út septembermánuð, sem birtur var í Kauphöll Íslands í gær.
Heildartekjur Sýnar vaxa milli ára. Þær voru 15,3 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins en höfðu verið 14,9 milljarðar króna á sama tímabili 2019. Tekjuhækkunin er að öllu leyti tilkomin vegna þess að tekjur Endor, upplýsingafyrirtækis sem stýrir ofurtölvum sem Sýn keypti í fyrra, komu inn í samstæðureikning félagsins í ár. Tekjur vegna hýsingar- og rekstrarlausna voru því tæplega 1,8 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 en þær voru engar í fyrra.
Tekjur vegna fjölmiðlarekstur Sýnar hafa hins vegar dregist mest saman á fyrstu níu mánuðum ársins, eða um 565 milljónir króna miðað við sama tímabil í fyrra. Þær voru rúmlega 5,7 milljarðar króna það sem af er ári.
Fjölmiðlatekjurnar halda áfram að lækka
Sýn keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum í lok ársins 2017. Um er að ræða ljósvakamiðla á borð við Stöð 2, Bylgjuna og tengdar útvarpsstöðvar og fréttavefinn Vísi. Kaupverðið var 8,2 milljarðar króna.
Í fjárfestakynningu vegna nýjasta uppgjörs Sýnar kemur fram auglýsingatekjur fjölmiðla Sýnar hafi dregist saman um 15 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil í fyrra, og að það sé meginástæða þess að fjölmiðlatekjur hafi haldið áfram að lækka. Það er sagt að stórum hluta vegna áhrifa af yfirstandandi heimsfaraldri. Tekjur af sjónvarpsdreifingu hafi hins vegar aukist og jákvæð þróun er sögð í áskriftartekjum milli ársfjórðunga eftir að þær drógust saman á fyrri hluta árs.
Annað sem verður að teljast jákvætt fyrir fjölmiðlarekstur Sýnar er að fréttavefur samstæðunnar, Vísir.is, hefur verið mest lesni vefur landsins þrjár vikur í röð, og í fimm af síðustu sjö vikum. Þótt það hafi gerst endrum og sinnum að Vísir hafi farið yfir mbl.is, fréttavef Árvakurs, á lista Gallup yfir mest lesnu vefina þá hefur það aldrei áður gerst svo oft á tæplega tveggja mánaða tímabili. Vísir er enda farinn að auglýsa sig sem mest lesna vef landsins.
Áskoranir á auglýsingamarkaði
Farsímatekjur Sýnar dragast einnig marktækt saman, eða alls um 275 milljónir króna á árinu. Sá samdráttur er að mestu rakinn til þess að reikitekjur hafa lækkað um 60 prósent. Það er bein afleiðing af fækkun ferðamanna til landsins og samdrætti í ferðum Íslendinga erlendis vegna COVID-19.
Tekjur vegna internet-hluta samstæðunnar hafa líka lækkað um 187 milljónir króna það sem af er ári. Þá þróun má rekja til fækkun notenda en samkvæmt uppgjörstilkynningu hefur verið jákvæð þróun þar síðustu vikur og stjórnendur vænta vaxtar á síðasta ársfjórðungi ársins.
Heiðar Guðjónsson, sem hefur verið forstjóri frá því í febrúar 2019, segir í uppgjörstilkynningunni að áfram séu áskoranir á auglýsingamarkaði og að reikitekjur hafi nær alfarið fallið út í uppgjörinu. „Á móti kemur að aðrir liðir eru á uppleið. Ánægja viðskiptavina er að batna hratt, sem skiptir mestu máli til lengri tíma litið, og við sjáum fram á fjölgun viðskiptavina.“
Fjárfestar hafa ekki reynst jafn jákvæðir gagnvart uppgjörinu. Verð á bréfum Sýnar hefur fallið skarpt í dag, eða um tæp 13 prósent. Markaðsvirði Sýnar er um 9,2 milljarðar króna eins og stendur.
Ætla að selja innviði fyrir sex milljarða
Sýn greindi frá því í október að félagið væri langt komið með að ná samkomulagi við erlenda fjárfesta um helstu skilmála í sölu og 20 ára endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins.
Söluhagnaður Sýnar gæti numið yfir sex milljörðum króna, gangi viðskiptin eftir.
Í árshlutauppgjörinu segir að einkaviðræður hafi veirð undirritaðar 23. október og að til standi að klára samninga á þessu ári. Ráðgert sé að selja selja ríflega 200 af um 600 sendastöðum félagsins til sérstaks eignarhaldsfélags sem stofnað verði utan um innviðina. Mismunandi útfærsla sé á því í Evrópu, þar sem sambærilegar sölur hafi átt sér stað, hvort að öryggis-, hita- eða rafmagnsskerfi fylgi með þegar stofnað er slíkt eignarhaldsfélag í þeim eina tilgangi að færa eignirnar þangað inn og selja svo.