Það er orðið nokkuð ljóst að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar ekki að játa sig sigraðan fyrr en í fulla hnefana. Eftir því sem liðið hefur á daginn hafa vonir hans um sigur þrengst verulega, að því gefnu að öll atkvæði sem greidd voru og móttekin verði talin með.
Pennsylvanía virðist ætla að falla í skaut Joe Biden og þá skiptir ekki máli hvernig leikar enda í Nevada, Arizona, Norður-Karólínu og Georgíu, því kjörmennirnir tuttugu í Pennsylvaníu myndu fleyta Biden yfir 270 kjörmenn, óháð niðurstöðunni í hinum ríkjunum sem enn er óvissa um.
Forsetinn og fylgitungl hans hafa byrjað herferð um að nú beri að hætta talningu atkvæða, enda atkvæðin sem verið er að ljúka við að telja, í Pennsylvaníu og Georgíu til dæmis, að miklum meirihluta póstatkvæði frá demókrötum, sem valda því að það saxast á „forskot“ Trumps.
Af þessum sökum hefur framboð Trumps ákveðið að höfða dómsmál um gildi kjörseðla í nokkrum ríkjum nú þegar, fá talningu hætt eða þá að óska eftir því að atkvæði verði talin aftur í einstaka ríkjum þar sem Biden hefur haft sigur.
Viðbúið að þetta yrðu viðbrögðin
Þetta er afar fyrirsjáanlegt, enda eru margir mánuðir síðan að Trump byrjaði að halda því fram að Demókrataflokkurinn myndi reyna að „stela kosningunum“ af sér með póstatkvæðum, sem hann hefur ítrekað fullyrt án nokkurra stoða í raunveruleikanum að leiði til kosningasvindls.
En Trump er búinn að sá fræjum efans um gangverk lýðræðisins í Bandaríkjunum í huga margra kjósenda sinna og fréttir hafa nú borist af mótmælum fyrir utan talningarstaði. Í Detroit í Michigan safnaðist hópur fólks saman í gær og kyrjaði það sama og forsetinn sagði á Twitter í dag: „Stöðvið talninguna.“
Reyndar eru mótmælin misjöfn eftir ríkjum. Í Phoenix í Arizona, þar sem póstatkvæði voru talin fyrst og forsetinn hefur verið að saxa á „forskot“ Bidens, söfnuðust stuðningsmenn Trumps saman og kröfðust þess að hvert einasta atkvæði yrði talið.
Í Arizona hefur sú samsæriskenning verið á flugi að kjósendur í Maricopa-sýslu, þar sem repúblikanar eru í meirihluta þeirra sem kusu á kjördag, hafi verið látnir kjósa með tússpennum sem talningarvélarnar lesi ekki. Þetta er ekki rétt.
Formleg niðurstaða gæti verið langt undan
Þrátt fyrir að flest bendi til þess að Joe Biden verði fljótlega kominn upp í 270 kjörmenn, er ljóst að niðurstaða talningar í einstaka ríkjum gæti orðið deiluefni í dómsölum vikum og mögulega mánuðum saman. Þessi mál virðast ætla að verða fjölmörg og mismunandi.
Eitt dæmi: Í Pennsylvaníu-ríki er lögmætt samkvæmt reglum ríkisins að telja öll atkvæði sem eru póstlögð fyrir kjördag eða á kjördag og berast á áfangastað innan þriggja daga frá kjördegi. Lögmannateymi Trumps er að reyna að koma í veg fyrir að þau atkvæði sem koma í hús með lögmætum hætti verði talin.
Óljóst er hversu mörg þau verða og hvort slíkt sé líklegt til að hafa áhrif á niðurstöðuna í ríkinu, sem Trump verður að vinna, ætli hann að eygja nokkurn möguleika.