Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur leyst einn starfsmann tímabundið undan starfsskyldum sínum, vegna rannsóknar embættis héraðssaksóknara á handtöku manns í Hafnarfirði síðasta mánudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Fjallað var um handtökuna í Fréttablaðinu í dag, en sjónarvottar sem blaðið ræddi við sögðu lögreglu hafa gengið allt of langt gagnvart þeim handtekna, slegið hann með kylfu í höfuðið og haldið áfram að láta högg dynja á honum eftir að hann virtist hafa misst meðvitund.
Í frétt blaðsins sagði að til átaka hefði komið á milli þess handtekna og lögreglumannanna eftir að lögregla braut rúðu í bíl hans. Þá sagði blaðið frá því að einn lögreglumaður hefði beitt piparúða, annar fengið efnið í augum og þá farið að sveifla kylfu sinni ítrekað í höfuð mannsins sem var handtekinn.
Sá handtekni var stöðvaður vegna gruns um vörslu fíkniefna og sagði lögreglumönnum þá að hann væri með COVID-19. Kallaður var út sérstakur COVID-viðbragðsbíll lögreglu til að sinna málinu og voru alls fjórir lögregluþjónar sem tóku þátt í aðgerðinni.
Upptökur úr búkmyndavélum til skoðunar
Fram kom í frétt Fréttablaðsins að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefði verið gert viðvart um málið. Lögreglan greindi svo frá því í tilkynningu í morgun að málinu hefði þegar verið vísað til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og að á meðal málsgagna væru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi.