Joe Biden hefur verið kjörinn 46. forseti Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu Decision Desk HQ kl. 13:50 að íslenskum tíma í dag, kl. 8:50 að austurstrandartíma í Bandaríkjunum.
Tölfræðifyrirtækið, sem þjónustar fjölmarga fjölmiðla um gögn varðandi niðurstöður kosninganna, reið á vaðið og varð fyrst til þess að lýsa því yfir að Joe Biden myndi hafa betur í Pennsylvaníuríki.
Hann væri því búinn að tryggja sér að minnsta kosti 273 kjörmenn, en 270 slíka þarf til þess að hafa betur í kosningunum.
Yfirlýsingin frá Decision Desk kom nánast í sama mund og nýjar tölur frá Pennsylvaníu sýndu fram á að Biden væri kominn með forskot á Trump í ríkinu, þegar enn á eftir að telja tugi þúsunda póstatkvæða frá svæðum í ríkinu þar sem demókratar eru með sterka stöðu. Trump á enga leið til baka.
Þegar þetta er skrifað hafa ekki fleiri tölfræðideildir vestanhafs lýst yfir sigri Biden í kosningunum og ekki nein af stóru sjónvarpsstöðvunum. Þess ætti þó ekki að vera langt að bíða, enda ljóst í hvað stefnir í Pennsylvaníu.
„Gott hjá þeim. Niðurstaðan hefur verið ljós um nokkra hríð. Það er enn nokkur vafi um niðurstöðuna í Georgíu og Arizona, en Biden þarf ekki þessi ríki til þess að vera kjörinn,“ skrifaði Nate Silver, ritstjóri vefsíðunnar FiveThirtyEight, um yfirlýsingu Decision Desk.
Decision Desk HQ er í hópi þeirra 7 greiningaraðila sem samfélagsmiðillinn Twitter sagði fyrir kosningarnar að væru nægilega áreiðanlegir til þess að „kalla“ niðurstöður kosninganna, ásamt Associated Press, ABC, NBC, CBS, Fox News og CNN.