Heiða Björg Hilmisdóttir sigraði í kjöri til varaformanns Samfylkingarinnar með rúmum 60 prósentum atkvæða á landsfundi flokksins sem nú fer fram. Alls greiddu 889 atkvæði en af þeim hlaut Heiða Björg 534 atkvæði. Helga Vala Helgadóttir, mótframbjóðandi hennar hlaut 351 atkvæði.
Heiða Björg sagði það hafa verið krefjandi, skemmtilegt og ánægjulegt að vera varaformaður flokksins. Hún þakkaði sérstaklega þeim sem sýndu henni stuðning og lofaði því að leggja sig alla fram í störfum sínum sem varaformaður.
Á eftir Heiðu Björgu steig Helga Vala í pontu. Hún sagði kosningabaráttuna hafa verið hressandi. Hún taldi það vera heilbrigt fyrir flokk sem aukið hefði fylgið sitt á undanförnum árum að velja nýja forystu eða að endurnýja umboð til forystunnar sem nú hefði verið gert. Hún sagðist vera stolt að tilheyra hópi fólks sem getur gengið til kosninga án þess að það „fuðri allt upp.“
Logi einn í framboði
Landsfundur Samfylkingarinnar var settur í gær á Hilton Reykjavík Nordica. Þar fer dagskrá fundarins fram en vegna sóttvarnaráðstafana er þar fámennur hópur að störfum. Landsfundarfulltrúar sækja því fundinn rafrænt í gegnum fjarfundarbúnað hver í sinni tölvu.
Meðal dagskrárliða fundarins í gær voru kosningar til formanns flokksins. Logi Már Einarsson, núverandi formaður, var einn í framboði og var hann endurkjörinn með 96,45 prósentum greiddra atkvæða.