Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er einn þeirra kvenleiðtoga sem munu sækja sækja Heimsþing kvenleiðtoga sem hefst á mánudag og stendur til miðvikudags. Þetta er í þriðja sinn sem þingið er haldið en að því standa alþjóðlegu þingkvennasamtökin Women Political Leaders í samstarfi við ríkisstjórn Íslands og Alþingi. Vegna kórónuveirufaraldursins fer þingið að þessu sinni fram á netinu en það hefur verið haldið í Hörpu undanfarin ár.
Í fréttatilkynningu vegna þingsins segir að tilgangur þess sé að gefa þátttakendum tækifræi til þess að ræða og skiptast á hugmyndum um hvernig kvenleiðtogar geti beitt sér fyrir betra samfélagi, auknu jafnrétti milli kynja og valdeflingu kvenna í sem víðustu samhengi. Heimsþingið er samstarfsverkefni til fjögurra ára og er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sérstakur verndari þess.
Fjöldi þjóðarleiðtoga tekur þátt
Hátt í þrjátíu núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogar taka þátt í þinginu þetta árið. Þeirra á meðal eru: Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra; Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs; Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands; Julia Gillard, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu; Helen Clar, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja Sjálands og Michelle Bachelet fyrrverandi forsætisráðherra Síle. Auk þeirra munu margar áhrifamiklar konur sækja þingið og taka þátt í samtölum. Þeirra á meðal áðurnefnd Hillary Clinton, Svetlana Tikhanovskaya, Melinda Gates og Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women.
,,Við erum mjög ánægð að geta, þrátt fyrir heimsfaraldur, haldið heimsþingið rafrænt og að til þátttöku hafi skráð sig svo stór og öflugur hópur kvenleiðtoga alls staðar að úr heiminum. Að sjálfsögðu söknum við þess að geta ekki fyllt Hörpu og höfuðborgina af krafti þeirra kvenleiðtoga sem hingað koma á hverju ári, en markmiðin eru óbreytt og mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að ræða leiðir og fjölga tækifærum til að auka áhrif og völd kvenna í heiminum,” er haft eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fréttatilkynningu sem send var út vegna þingsins en Hanna Birna er stjórnarformaður framkvæmdastjórnar heimsþings kvenleiðtoga