Í formannsræðu Loga Márs Einarssonar á landsfundi Samfylkingarinnar sem nú stendur yfir sagði hann að Íslandi farnaðist best í nánu samstarfi við Evrópu og hann vill að hér verði stigin ný skref í átt að aukinni Evrópusamvinnu. Þá sagði hann að það ætti að vera algjört forgangsmál að fjölga störfum með öllum tiltækum ráðum.
Landsfundur Samfylkingarinnar var settur á Hilton Reykjavík Nordica í gær og er hann sendur út rafrænt. Landsfundarfulltrúar sitja því hverjir við sína tölvu en fámennur hópur heldur uppi dagskrá fundarins frá Nordica. Logi Már Einarsson var endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar í gær en hann var einn í framboði. Hann hélt formannsræðu sína á landsfundi fyrr í dag.
Aðalatriðið að fjölga störfum
Í ræðu sinni fjallaði Logi meðal annars um efnahagsáætlun sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram. Að sögn Loga mun áætlunin koma til með að skapa sjö þúsund störf á árinu 2021 verði henni hrint í framkvæmd. Þetta myndi nást með því að „styrkja ráðningar en ekki uppsagnir, eins og ríkisstjórnin gerir,“ sagði Logi.
Hann sagði aðalatriðið vera að fjölga störfum strax, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. „Enda blasir við að versta atvinnukreppa á Íslandi frá upphafi mælinga er ekki rétti tíminn til að karpa um hlutfallslegt vægi hvors fyrir sig.“
Þá sagði hann að meðal þess sem hægt væri að gera til þess að fjölga störfum væri að létta skattbyrði einyrkja og smærri fyrirtækja og lækka vinnuletjandi jaðarskatta á barnafólk og lífeyrisþega.
Sendi stjórnarflokkunum pillu
Logi sagði Vinstrihreyfingunni - grænu framboði ekki hafa tekist að koma sínum málum í framkvæmd. „Loftslagsmálin eru enn í lamasessi þrátt fyrir miklar yfirlýsingar, ríkisstjórnin rekur ójafnaðarstefnu í skattamálum og mannfjandsamlega stefnu í málefnum flóttafólks,“ sagði hann meðal annars um störf ríkisstjórnarinnar.
Þá sagði hann Framsóknarflokk skreyta sig með félagshyggjufjöðrum þegar líða fer að kosningum en að flokkurinn hefði laskaða sjálfsmynd eftir langt samstarf með Sjálfstæðisflokki. Sá flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sagði Logi vera sundraðan og klofinn – íhaldsfólkið gengi í Miðflokkinn en markaðssinarnir færu í Viðreisn.
Vill tímabundinn nýtingarétt náttúruauðlinda
Í ræðu Loga kom fram að Samfylkingin vildi skýra þjóðareign með tímabundnum nýtingarrétti og eðlilegri gjaldheimtu. Þetta sagði Logi vera vilja þjóðarinnar og vísaði þar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár sem haldin var árið 2012.
„Spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012 var einföld: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign?“ Og svar þjóðarinnar var skýrt. 83 prósent sögðu já. Aðeins 17 prósent sögðu nei. Það er erfitt að ímynda sér aðra hápólitíska spurningu sem gæti fengið eins afgerandi svar,“ sagði Logi og bætti því við að stjórnvöld hefðu hunsað vilja þjóðarinnar frá því að atkvæðagreiðslan fór fram.
Vill taka ný skref til aukinnar Evrópusamvinnu
„Við þurfum grænni utanríkisstefnu því land eins og Ísland á að vera í fararbroddi í aðgerðum gegn hamfarahlýnun á alþjóðavettvangi, ekki hjáróma rödd,“ sagði Logi meðal annars um utanríkismálin en að hans mati hefur ríkisstjórnin „enga heildstæða stefnu“ í utanríkismálum. Þá sagði Logi hér skorta metnað þegar kemur að því að tala fyrir friði, öryggi og mannréttindum. Í því samhengi nefndi hann popúlisma og aðför stjórnvalda að réttindum fólks, hvort sem er í Póllandi, Hvítarússlandi eða Bandaríkjunum.
Logi sagði í ræðu sinni telja að Íslandi farnaðist best í nánu samstarfi við Evrópu. „Við erum sannfærð um að til langs tíma sé pólitískum og efnahagslegum hagsmunum Íslendinga best borgið með aðild að Evrópusambandinu. Við viljum sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar,“ sagði Logi.
Hann sagði að í augnablikinu þá þyrfti að sækja betur tækifærin sem felast í EES samstarfinu. Engu að síður vill Logi auka á samstarfið við Evrópu: „Við eigum að sækja í kraftinn í alþjóðasamstarfi og skapa tækifæri fyrir alla Íslendinga til að hér verði hægt að taka ný skref til aukinnar Evrópusamvinnu, skapa aukin verðmæti og tryggja öflugt velferðarsamfélag.“