Vonir standa til þess að þegar á fyrstu hundrað dögum Josephs Biden á forsetastóli muni aðgerðum gegn loftslagsvánni rigna yfir Bandaríkin. En svo aftur sé gripið til náttúrulýsingar á því sem kann að gerast: Í miklum rigningum eiga stíflur það til að myndast. Og stíflan gæti falist í andstöðu öldungadeildar þingsins – verði það enn undir yfirráðum repúblikana sem hafa hingað til ekki verið yfir sig hrifnir af lögum og reglum í umhverfismálum. Það á hins vegar eftir að skýrast frekar því svo gæti farið að demókratar nái meirihluta í deildinni. Þá kann sú stífla í málaflokknum að bresta.
En markmið Bidens í loftslagsmálum eru skýr og hann hefur heitið því að eyða tveimur billjónum dala, ($2.000.000.000.000) á fjórum árum í það að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, minnka notkun jarðefnaeldsneytis og auka þátt hreinni orkugjafa. Þetta eru metnaðarfyllstu markmið sem nokkur forsetaframbjóðandi vestanhafs hefur sett fram í málaflokknum sem sífellt meiri áhersla er nú lögð á í heiminum.
Í samantekt New York Times eru talin upp þau helstu atriði er tengjast loftslagsmálum sem Biden ætlar að leggja áherslu á frá fyrsta degi í Hvíta húsinu.
Það fyrsta sem hann mun gera er að endurvekja þátttöku Bandaríkjanna í Parísarsamkomulaginu sem skrifað var undir árið 2015 en Trump dró þjóð sína út úr. Þetta verður ekki flókið verk því það eina sem Biden þarf að gera er að senda Sameinuðu þjóðunum bréf með ósk sinni um þátttöku á ný sem rætist svo þrjátíu dögum síðar.
Biden hefur einnig sagt að hann ætli sér að blása til loftslagsráðstefnu til að þrýsta á leiðtoga stærstu iðnvelda heims til að setja sér metnaðarfyllri markmið þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Sérfræðingar telja að Biden muni einnig flétta loftslagsaðgerðir inn í alla efnahagslega hvata sem ráðist verður í vegna kórónuveirufaraldursins. Þannig er talið líklegt að nýsköpun og rannsóknir til þróunar á hreinum orkugjöfum fái vænan skerf af þeirri köku og að einstökum ríkjum verði veittir styrkir til að halda áfram þróun sinni á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá má búast við því að vistvænum fyrirtækjum verði umbunað í skattkerfinu.
Biden hefur einnig sagt að hann ætli þegar á fyrsta degi í embætti að gefa út forsetatilskipun um að opinber fyrirtæki verði að halda loftslagsbókhald. Þá er búist við því að hann fari vandlega yfir tilslakanir sem gerðar voru á olíurannsóknum og framleiðslu árið 2017 og svo gæti farið að hann stöðvaði flýtimeðferð skipulags- og umhverfismatsferlis olíuleiðslna og jarðefnaeldsneytisvinnslu.
Forsetinn verðandi hefur talað fyrir því að loftslagsmálin verði skoðuð samhliða jafnréttismálum og að sérstaklega verði fylgst með mengun og öðrum umhverfisþáttum í viðkvæmum samfélögum.
Víðernin eru ofarlega á blaði Bidens og ætlar hann að vinda ofan af „árás Trumps“ á gersemar Bandaríkjanna og á þar við skerðingar hans á friðlöndum og ekki síst þá ákvörðun hans að heimila olíuleit í einu þeirra. Biden stefnir á að gefa út tilskipun þess efnis að árið 2030 muni 30 prósent af landi og hafsvæði Bandaríkjanna njóta verndar.