Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi staðið mjög þétt saman um tillögur til sóttvarna í kórónuveirufaraldrinum. „Eftir því sem að þetta ástand varir lengur þá koma upp fleiri spurningar,“ sagði hann í Kastljósi á RÚV í kvöld, spurður um ummæli bæði Brynjars Níelssonar og Sigríðar Andersen, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýnt hafa aðgerðir yfirvalda og telja þær ganga of langt.
„Ég er þeirrar skoðunar að það sé verið að hreyfa mjög eðlilegum sjónarmiðum og ég vil vara mjög alvarlega við því að menn sem velta upp mjög áleitnum spurningum um þessar sóttvarnaráðstafanir séu slegnir niður.“
Hann sagðist ánægður með að innan hans flokks heyrðust raddir um að stjórnvöld geti ekki gripið inn í líf fólks án þess að fyrir því séu skýrar heimildir enda stæði endurskoðun sóttvarnalaga fyrir dyrum. Sagði Bjarni „ekkert óeðlilegt“ að gráar línur væru til staðar þegar flóknar sóttvarnaráðstafanir væru annars vegar.
Hann sagðist t.d. geta farið til hnykkjarans síns en hann mætti ekki fara í klippingu. „Þeir sem að segja að þeir sem spyrji spurninga um þessa gráu línu séu einhvern veginn að grafa undan samstöðunni í landinu – þeir eru að ganga of langt.“
Brynjar hefur sagt að hann sé að missa þolinmæðina gagnvart sóttvarnaaðgerðum og að hann sé hættur meðvirkni hvað þetta varðar. Bjarni sagði Brynjar verða sjálfan að tala fyrir sínum skoðunum. „En ég held að hann hafi hins vegar verið að hreyfa mjög gildum spurningum um það hversu langt er hægt að ganga í sóttvarnaráðstöfunum miðað við það ástand sem þú ert að glíma við.“