Auglýsingatekjur RÚV verða um 300 milljónum króna lægri á árinu 2020 en áætlað var, beinn aukinn kostnaður fyrirtækisins vegna hlutverks RÚV í COVID-19 faraldrinum er hátt í 80 milljónir króna og gengislækkun og aðrir liðir hafa hækkað fjármagnsliði fyrirtækisins um 90 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða RÚV verður því 470 milljónum krónum verri í ár en stefnt var að. Þetta er meðan þess sem fram kemur í umsögn Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Staðan á næsta ári, 2021, verður mun alvarlegri sögn Stefáns. Líkt og Kjarninn greindi frá í byrjun október er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að framlög til RÚV úr ríkissjóði verði lækkuð um 310 milljónir króna milli ára og verði rúmlega 4,5 milljarðar króna. Þau voru rúmlega 4,8 milljarðar króna á yfirstandandi ári.
Heildarfjárheimild til fjölmiðla, sem fjármögnuð er með að mestu með innheimtu útvarpsgjalds, er áætluð fimm milljarðar króna. Það þýðir að 484 milljónir króna munu fara í eitthvað annað RÚV. Þar af fara 92 milljónir króna í rekstur Fjölmiðlanefndar en það sem út af stendur, 392 milljónir króna, er ætlaður stuðningur við einkarekna fjölmiðla.
Samdráttur í fréttaþjónustu í pípunum
Hann segir ljóst að svo umfangsmikil lækkun á tekjum, alls um tíu prósent hjá RÚV, veðri ekki mætt einungis með frekari hagræðingu og niðurskurði í yfirstjórn og stoðdeildum RÚV, líkt og þegar hafi verið ráðist í. „Fyrirsjáanlegt er að mæta þurfi þessu með breytingum og samdrætti í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV.“
Stefán telur mikilvægt að Alþingi sé vel meðvitað um þau áhrif sem meðal annars muni koma niður á getu RÚV til þess að mæta aukinni eftirspurn og kröfum um fréttir, upplýsingar, fræðslu og afþreyingu á þeim tímum sem nú eru. „Eins og öllum er kunnugt um hefur öll menningarstarfsemi í landinu verið mjög takmörkuð og í sumum tilvikum alfarið stöðvast vegna COVID-19. Við þessu hefur RÚV brugðist m.a. með fjölbreyttri samvinnu við aðrar menningarstofnanir um miðlun á efni og með þróun á eigin dagskrá í takt við breyttar aðstæður og auknar kröfur. Miklar kröfur eru gerðar til RÚV í þeim efnum af hálfu annarra menningarstofnana og samtaka listamanna, en vandséð er hvernig RÚV á að geta staðið undir öflugri dagskrárgerð við þær fjárhagsaðstæður sem blasa við.“
Stefnt að því að styrkja einkarekna miðla
Líkt og áður sagði þá er gert ráð fyrir að 392 milljónir króna af heildarfjárheimild til fjölmiðla úr ríkissjóði fari í stuðning við einkarekna fjölmiðla. Slíkur stuðningur hefur verið í deiglunni árum saman og drög að frumvarpinu voru fyrst kynnt af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í lok janúar 2019. Það komst hins vegar ekki á dagskrá vorþings þess árs vegna mikillar andstöðu við málið hjá hluta þingflokks Sjálfstæðisflokks.
Í kjölfarið voru gerðar breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við þá andstöðu. Í þeim fólst aðallega að stærstu fjölmiðlar landsins myndu fá hærri styrkjagreiðslur en minni fjölmiðlar myndu skerðast á móti.
Gert ráð fyrir stuðningsgreiðslum til fjölmiðla í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020.
Nýtt frumvarp, sem átti að leggjast fram í september 2019, lét þó á sér standa. Lilja mælti á endanum ekki fyrir frumvarpi um að lögfesta slíkt styrkjakerfi fyrr en í desember 2019. Frumvarpið var hins vegar svæft í nefnd, aftur að mestu fyrir tilstilli þingmanna Sjálfstæðisflokks, og fékk ekki afgreiðslu.
Þess í stað var ákveðið að taka þá fjármuni sem búið var að heita í styrkina og breyta þeim í einskiptis neyðarstyrk vegna COVID-19. Lilju var falið að útfæra greiðslu þeirra í reglugerð. Það gerði hún í byrjun júlí.
Í reglugerðinni var sú breyting gerð á upprunalegri úthlutunaraðgerð að sú upphæð sem stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins gátu sótt í ríkissjóð var tvöfölduð, úr 50 milljónum króna í 100 milljónir króna. Fyrir vikið skertust greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs. Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, fékk mest allra, eða hámarksstyrk upp á 99,9 milljónir króna.
Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar átti að leggja fram frumvarp Lilju um styrki til einkarekinna fjölmiðla í þriðja sinn í októbermánuði. Það hefur enn ekki verið lagt fram.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum.