Ákvæði upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings varðandi málefni opinberra starfsmanna munu ná yfir upplýsingagjöf hjá Ríkisútvarpinu, en það hefur reyndar alltaf verið vilji löggjafans, samkvæmt því sem fram kemur í nýjum frumvarpsdrögum sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Frumvarpið er sett fram til þess að bregðast við ábendingum frá umboðsmanni Alþingis. Þær komu fram vegna kvörtunar sem umboðsmanni barst í kjölfar þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu í desember 2019 að Ríkisútvarpið þyrfti ekki segja frá því hverjir sóttu um starf útvarpsstjóra.
Blaðamaður Vísis óskaði eftir þeim upplýsingum, en fékk ekki, eins og frægt varð og umrætt í samfélaginu á meðan ráðningarferlið stóð yfir. Stjórn RÚV bar fyrir sig að ráðgjafar í ráðningamálum hefðu mælt með því að þessar upplýsingar yrðu ekki veittar, til þess að fæla ekki hæfa umsækjendur frá.
Frumvarp Lilju er til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið, nánar tiltekið 2. mgr. 18. gr. laganna, en þar segir einfaldlega í dag að upplýsingalög gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sagði í úrskurði sínum frá því í fyrra að ekki væri unnt að túlka ákvæðið á þann veg að það veitti almenningi rétt til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu og áleit að sérreglur upplýsingalaga um lögaðila í opinberri eigu ættu að eiga við í staðinn.
Upplýsingalög gildi um RÚV eins og um stjórnvald sé að ræða
Það var aldrei vilji löggjafans, samkvæmt því sem fram kemur í þessu nýja frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra. Þar er rakið að þegar ný lög um Ríkisútvarpið og ný upplýsingalög tóku gildi á 141. löggjafarþingi, veturinn 2012-2013, skapaðist lagaleg óvissa um hvort almenningur ætti rétt til upplýsinga um málefni starfsmanna Ríkisútvarpsins, sem reyndi reyndar ekkert á fyrr en árum seinna.
Í greinargerð með frumvarpi Lilju segir að ljóst sé að þegar lögunum um Ríkisútvarpið var breytt þingveturinn 2012-2013 hefði það verið vilji Alþingis að láta ákvæði upplýsingalaga áfram gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins líkt og um stjórnvald væri að ræða.
Því er lagt til í frumvarpsdrögum ráðherra að þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti almennings eigi ekki við þurfi Ríkisútvarpið að veita upplýsingar um eftirtalin atriði sem varði starfsmenn fyrirtækisins:
- nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn,
- nöfn starfsmanna og starfssvið
- föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda,
- launakjör æðstu stjórnenda,
- áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra.
Upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt skulu einnig vera veittar, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, ef ekki eru liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.
Ávinningur af auknu gagnsæi í starfseminni
Í greinargerð segir að frumvarpið feli í sér skýrari upplýsingarétt almennings er varðar málefni Ríkisútvarpsins og taki af skarið um að réttur almennings nái til upplýsinga um málefni starfsmanna Ríkisútvarpsins líkt og um starfsmenn stjórnvalda í skilningi upplýsingalaga. Þetta er sagt til þess fallið að auka gagnsæi í starfsemi Ríkisútvarpsins.
Sérstaklega er tekið fram að ekki sé talið að frumvarpið skerði friðhelgi einkalífs starfsmanna Ríkisútvarpsins umfram kröfur sem gerðar eru til slíkrar skerðingar samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
„Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og starfrækir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það er því augljós ávinningur af því að auka gegnsæi í starfsemi þess og að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um hana sé ríkur,“ segir í niðurlagi greinargerðarinnar.