Út árið 2021 verður Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilt að veita hlutdeildarlán fyrir allt að 10 prósent dýrari íbúðum á höfuðborgarsvæðinu en kveðið er á um í reglugerð, en undanþágan er þó bundin við tilvik og svæði þar sem byggingarkostnaður er hærri en almennt gerist vegna aðstæðna á byggingarstað eða skilmála og byggingarreit.
Þetta kemur fram í endanlegri reglugerð Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra um útfærslu hlutdeildarlánanna, sem tók gildi í gær. Þ er einnig veitt heimild út árið 2021 til þess að lána fyrir íbúðum sem eru þegar komnar af stað í byggingarferli núna við gildistöku reglugerðarinnar og eru í stærri kantinum innan hvers stærðarflokks íbúðar. Mega þær vera að hámarki 1,8 milljón dýrari en það hámarksverð sem almennt er skilgreint í reglugerðinni.
Íbúðir verði í takt við kröfur samtímans
Í endanlegri reglugerð ráðherra virðist tekið tillit til ýmissa athugasemda sem fram komu í umsögnum um reglugerðardrögin, en þar er meðal annars fallið frá því orðalagi að hagkvæmar íbúðir sem falli undir skilyrði hlutdeildarlána þyrftu að vera „einfaldar að allri gerð“, en nú segir að þær skuli „útbúnar og innréttaðar í samræmi við kröfur samtímans“ og að lóðir skuli hannaðar með þarfir íbúa að leiðarljósi. Íbúðir skulu þó sem áður vera hagkvæmar sem frekast er kostur og rekstur þeirra á að verða hagkvæmur, með tilliti til bæði orku- og viðhaldþarfar.
Nú segir í reglugerðinni að leitast skuli við að hafa íbúðir „staðsettar í nálægð við góðar almenningssamgöngur, græn svæði til útivistar og nauðsynlega þjónustu,“ auk þess sem stuðlað verði að félagslegri blöndun, en í umsögnum Reykjavíkurborgar og svæðiskipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins og fleiri aðila voru settar fram áhyggjur af því að skilmálar hlutdeildarlánanna eins og þeir voru settir fram í drögum að reglugerðinni myndu skapa hvata til þess að byggja húsnæði í útjaðri núverandi byggðar, sem myndi hafa það í för með sér að íbúar gætu síður nýtt sér almenningssamgöngur.
Virðist reynt að koma til móts við þessar áhyggjur og fleiri með útfærslu endanlegrar reglugerðar.
Ekki lengur kveðið á um hámarksstærð
Í reglugerðinni, öfugt við reglugerðardrögin, er ekki lengur kveðið á um hámarksstærð íbúða í hverjum verðflokki, sem ætti að auka sveigjanleika byggingaraðila hagkvæms húsnæðis. Sem dæmi, þá áttu þriggja svefnherbergjaíbúðir samkvæmt reglugerðardrögunum að vera 91-100 fermetrar, en í endanlegri reglugerð segir að slíkar íbúðir skuli vera 90 fermetrar að lágmarki og engin efri stærðarmörk eru tilgreind.
Vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins skilgreind
Samkvæmt reglugerðinni eru áfram tvö mismunandi verðsvæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið, en lánað er fyrir dýrari íbúðum á svokölluðum „vaxtarsvæðum“ utan höfuðborgarsvæðisins en alla jafna utan höfuðborgarinnar. Þessi vaxtarsvæði voru ekki skilgreind sérstaklega í reglugerðardrögunum, en eru það í endanlegri reglugerð.
Samkvæmt reglugerðinni teljast Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Grindavíkurbær, Hveragerðisbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Árborg, Vogar og Ölfus til vaxtarsvæða utan höfuðborgarsvæðisins.
Hægt að sækja um lánin nú þegar
Opnað var fyrir umsóknir um hlutdeildarlán á sérstöku vefsvæði í upphafi mánaðarins, en hlutdeildarlánin eru nýlunda á íslenskum húsnæðismarkaði og ætluð tekjulágu fólki sem hefur ekki átt fasteign undanfarin fimm ár. Kaupendur þurfa sjálfir einungis að leggja fram 5 prósent af kaupverði fasteignar og fá 75 prósent íbúðalán hjá fjármálastofnun.
Ríkið stígur þannig í raun inn sem þögull meðfjárfestir í íbúðum með það eigið fé sem vantar upp á, en hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir. Lánstíminn er að jafnaði 10 ár, en þó er hægt að framlengja lánin um fimm ár í senn þannig að lánin verði að hámarki 25 ár samtals.
Greiða þarf lánin til baka þegar íbúðin er seld og nemur endurgreiðslufjárhæðin þá sama hlutfalli af söluverði húsnæðisins og upphafleg lánveiting nam af kaupverði.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í reglugerðinni verður heimilt að úthluta hlutdeildarlánum tvisvar sinnum á þessu ári, en annars á að úthluta þeim fjórum sinnum á ári. Í gær sagði Vísir frá því að hátt í eitt hundrað umsóknir um lánin hefðu þegar borist.