Apple kynnti nýjar Mac tölvur með ARM örgjörvum á sérstökum Mac-viðburði þann 10. nóvember síðastliðinn. Tæknivarpið fjallaði ítarlega um viðburðinn í hlaðvarpsþætti sem birtist í morgun á Kjarnanum.
Fram kemur í þættinum að ARM örgjöfarnir þýði meira afl, minni hita, lengri rafhlöðuendingu og miklu betri skjástýringu. Apple byrjar á ódýrari tölvunum, Macbook Air, Macbook Pro 13 tveggja porta og Mac Mini. Tölvurnar eru allar væntanlegar á þessu ári og eru strax komnar í sölu í Bandaríkjunum. Allar tölvurnar viðhalda að langmestu leyti fyrri hönnun og allar fá þær „M1“ örgjörvann.
M1 örgjörvinn er byggður á ARM hönnun og er með 8 kjarna örgjörva, 7-8 kjarna skjástýringu, 16 kjarna fyrir vélanám og samnýtt vinnsluminni, að því er fram kemur hjá Tæknivarpinu.
Enn fremur greina þáttastjórnendur Tæknivarpsins frá því að Macbook Air fái aðeins uppfærðan skjá og nýja FN-takka (Mic mute, Spotlight og Do Not Disturb). Hún sé 3,5x hraðari en fyrri Air tölvan og endist í 18 klukkutíma í stað 12. Hún sé viftulaus, hljóðlát og fær betri hljóðnema.
Macbook Pro 13 fær betri hljóðnema, bætta vefmyndavél og heldur sinni stöku viftu. Með viftunni getur hún keyrt M1 aðeins hraðar og er hún 2,8 sinnum hraðari en fyrri Pro 13. tölvan. Hleðslan endist í 20 tíma sem er það lengsta á fartölvu frá Apple.
Mac mini er eina tölvan sem verður áfram í boði með Intel örgjörva, og er einnig eina tölvan sem missir eitthvað. Intel tölvan býður upp á meira minni og möguleikann á 10 gígabita netkorti. Mac mini með M1 örgjörva býður mest upp á 16GB en er mun hraðari og býður upp á betri skjástýringu.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.