Ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaður á Landakoti er ófullnægjandi fyrir starfsemina sem þar fer fram og líklega meginorsök þeirra miklu smitdreifingar sem varð þegar hópsýking breiddist út á spítalanum í síðasta mánuði. Þetta er mat Lovísu Bjarkar Ólafsdóttur, sérfræðings í smitsjúkdómum og sýkingarvörnum hjá Landspítalanum, sem skrifaði skýrslu fyrir Landspítalann um hópsýkinguna.
Í skýrslunni er farið yfir atburðarás hópsýkingarinnar, en rekja mátti alls 98 COVID-19 tilfelli til hennar frá 22.-29. október. Þar af voru 52 starfsmenn og 46 sjúklingar. Meðalaldur starfsmanna var 43 ár, en meðalaldur sjúklinganna var 84 ár. Smitið náði til fjögurra deilda, en á einni deildinni sýktust allir 14 sjúklingarnir af veirunni. Í annarri deild smituðust 14 af 15 sjúklingum, eða 93 prósent þeirra, og í enn annarri sýktust sjö af átta sjúklingum.
Samkvæmt Lovísu er líklegt að smit hafi borist inn á stofnunina með nokkrum einstaklingum. Hins vegar telur hún einnig hugsanlegt að nokkur smitanna milli starfsmanna megi rekja til náinna samskipta þeirra vegna fjölskyldu- og vinatengsla utan vinnustaðar, en hún bætir við að nýgengi smita í samfélaginu hafi verið með hæsta móti á tíma hópsýkingarinnar.
Lovísa segir þó að margir samverkandi þættir hafi valdið þá miklu útbreiðslu sem hópsýkingin náði, en flestir þeirra snúa að ófullnægjandi aðbúnaði á spítalanum.
Engin loftræsting er á sjúkrastofum á Landakoti, en samkvæmt Lovísu er eingöngu útsog af snyrtingum á legudeildum, en enginn innblástur af nýju lofti. Í skýrslunni kemur einnig fram að starfsfólk hefur kvartað undan lélegri loftræstingu á öllum vinnusvæðum spítalans.
Til viðbótar við lélega loftræstingu kom í ljós að beitt hafi verið svokallaðri kæfisvefnsvélameðferð á einum sjúklingi spítalans, en síðar kom í ljós að hann var smitaður af veirunni. Þessi meðferð eykur dropaframleiðslu einstaklinga og veldur því að vélin dreifir úðaögnum frá öndunarfærum í andrúmsloftið. Að mati Lovísu gæti þessi dreifing, ásamt lélegri loftræstingu, hafa átt stóran þátt í því að smitin dreifðust vel innan spítalans.
3 salerni og 2 sturtur fyrir 19 sjúklinga
Til viðbótar við lélega loftræstingu nefnir Lovísa marga aðra galla í aðbúnaði á spítalanum sem urðu þess valdandi að sóttvarnir hafi ekki verið nægilegar þar. Til að mynda voru fjölmargir snertifletir inniliggjandi sjúklinga, líkt og sameiginleg salernisaðstaða, dagstofa, tækjasalur og hópameðferðir sjúkra- og iðjuþjálfa. Á einni deild voru einungis þrjú salerni og tvær sturtur fyrir 19 sjúklinga.
11-15 fermetra kaffistofur
Aðstöðu og ábúnaði starfsmanna er einnig ábótavant samkvæmt Lovísu og var það til þess fallið að auka líkur á smitdreifingu meðal starfsfólks. Sem dæmi fyrir því nefnir hún að búningsaðstaða sé þröng og kaffistofur litlar, en stærð þeirra er á bilinu 11 til 15 fermetrar. Oft hefði reynst erfitt að halda tveggja metra fjarlægð þegar starfsmennirnir tækju niður grímur í matarhléum.