Almennt atvinnuleysi á Íslandi mældist 9,9 prósent í október og Vinnumálastofnun spáir því að það muni aukast í nóvember og desember vegna þeirrar erfiðu stöðu sem nú er á vinnumarkaði sökum COVID-19. Spáin gerir ráð fyrir að almenna atvinnuleysið verði 11,9 prósent í lok þessa mánaðar og að það verði komið upp í 11,3 prósent í lok desember.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðaskýrslu Vinnumálastofnunar.
Það þýðir að almennt atvinnuleysi, þ.e. atvinnuleysi án tillits til þeirra sem eru að nýta hlutabótaleiðina, var meira í lok síðasta mánaðar en þegar það var sem mest eftir bankahrunið. Þá náði almenna atvinnuleysið hámarki í febrúar og mars 2009 þegar það mældist 9,3 prósent.
Rúmlega 40 prósent atvinnulausra erlendir ríkisborgarar
Alls voru 20.252 atvinnulausir í almenna bótakerfinu um síðustu mánaðamót og 4.759 á hlutabótaleiðinni. Samanlagt atvinnuleysi mældist 11,1 prósent og spá Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir að það muni hækka í 12,2 prósent í lok árs. Þar er reiknað með að fækka muni á hlutabótaleiðinni og að hún muni vigta 0,9 prósentustig í heildaratvinnuleysið en að almennt atvinnuleysi verði, líkt og áður sagði 11,3 prósent.
Atvinnuleysið er áfram mest á Suðurnesjum þar sem það mældist í heild 21,2 prósent í október. Almenna atvinnuleysið þar mældist 20,1 prósent en 1,1 prósentustig bættist við vegna hlutabótaleiðarinnar.
Atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara heldur áfram að aukast. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að heildaratvinnuleysi á meðal þeirra hafi verið um 25 prósent í október og almenna atvinnuleysið um 22 prósent. Það þýðir að hefðbundnir atvinnuleitendur, þ.e. þeir sem voru í almenna bótakerfinu en ekki á hlutabótaleiðinni, í hópi erlendra ríkisborgara voru 8.204 talsins í lok síðasta mánaðar. Því eru 41 prósent allra atvinnulausra á landinu erlendir ríkisborgarar. Í lok september síðastliðins voru erlendir ríkisborgarar sem búa hérlendis 51.120 talsins, eða tæplega 14 prósent íbúa landsins.