Þeir aðilar sem hafa deilt um samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar hér á landi að undanförnu virðast líklegir til þess að halda áfram að takast á um málefnið, nú þegar úttekt hefur verið gerð af óháðu greiningarfyrirtæki, sem sýnir fram á að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi skerði ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart fyrirtækjum í Kanada, Noregi og Þýskalandi.
„Samkeppnishæfni hlýtur að taka mið af núverandi stöðu og framtíðarhorfum,“ segir í fréttatilkynningu frá Samáli, samtökum álframleiðenda á Íslandi, sem benda á að í skýrslu greiningarfyrirtækisins Fraunhofer sé ekki tekin afstaða til þess hvort það orkuverð sem býðst á Íslandi í dag sé samkeppnishæft, auk þess sem bent sé á að einstaka raforkusamningar hér á landi gætu haft áskoranir í för með sér fyrir fyrirtæki.
„Þessi niðurstaða staðfestir það sem við hjá Landsvirkjun höfum talið okkur vita, að við bjóðum grænu orkuna okkar á samkeppnishæfu verði. Það er gott að fá það staðfest af sérfróðum, óháðum aðila,“ er hins vegar haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í fréttatilkynningu.
Þar er þess einnig getið að Landsvirkjun hafi haft vilja til þess að opinbera frekari upplýsingar um orkukostnað álvera en koma fram í skýrslunni, en haft var samráð við alla aðila um framsetningu niðurstaðna og komu fram athugasemdir sem tekið var tillit til, enda gögnin sem liggja að baki veitt í trúnaði.
Samál segir að ekki hafi verið horft til ákveðinna þátta í samanburðinum, sem geti haft áhrif á samkeppnishæfni auk raforkuverðsins. Samanburðarríkin þrjú búi til dæmis yfir öflugum heimamarkaði, öfugt við Ísland, sem skapi skilyrði fyrir öfluga virðisaukandi áframvinnslu. Samtökin lýsa eigi að síður ánægju með að ráðist hafi verið í þessa úttekt og sömuleiðis yfirlýsingar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur ráðherra um að endurskoða eigi flutningskerfi raforku með samkeppnishæfni að leiðarljósi.
Staðfesting á því að verðstefnan hafi ekki neikvæð áhrif
Haft er eftir forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningu að fyrirtækið hafi lagt sig fram um náið samstarf við viðskiptavini sína og sé ávallt reiðubúið að skoða hvaða leiðir eru færar til að ná hagstæðri niðurstöðu fyrir báða aðila.
„Við reynum að leggja okkar af mörkum með því að sýna sveigjanleika m.a. í verði og styðja þannig við rekstur þeirra við þessar krefjandi aðstæður. Það er hins vegar gott að fá staðfestingu á því að verðstefna okkar hafi ekki neikvæð áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina okkar á stórnotendamarkaði. Ég er líka sannfærður um að endurnýjanlega orkan gefur okkur samkeppnisforskot til framtíðar, nú þegar sífellt fleiri leita umhverfisvænna leiða í orkumálum,“ er haft eftir Herði.
Í tilkynningu Landsvirkjunar er einnig bent á að í skýrslu Fraunhofer komi fram að álver hér á landi þurfi meiri orku en ella til framleiðslu sinnar, þar sem þau búi ekki yfir allra nýjasta búnaði og tækni. Hörður segir áhyggjuefni að sama þróun hafi ekki orðið á Íslandi í Noregi, þar sem álver hafi náð að lækka orkunotkun sína umtalsvert á hvert framleitt tonn.