Ekki liggur fyrir hvenær stórhýsið sem áður hýsti höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand í Reykjavík verður rifið. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er ennþá unnið að skipulagi á svæðinu í samvinnu við Reykjavíkurborg og þegar niðurstaða í þá vinnu er komin er stefnt að því að niðurrif hefjist, en tímaramminn liggur ekki fyrir.
Íslandsbankahúsið hefur staðið autt allt frá því árið 2017, en þá flutti bankinn starfsemi sína í nýjar höfuðstöðvar í Norðurturni við Smáralind í Kópavogi, í kjölfar þess að miklar rakaskemmdir komu í ljós í byggingunni.
Í upphafi árs 2018, eftir að hafa fengið neikvæðar niðurstöður um ástand hússins og umfang rakaskemmda í því frá þremur sérfræðifyrirtækjum, fór bankinn þess á leit við Reykjavíkurborg að fá að rífa þessa miklu byggingu sína, sem byggð var um miðja síðustu öld sem fiskverkunarhús á vegum útgerðarfélaganna Júpíter og Mars.
Síðan þá hefur skipulagsvinna reitsins staðið yfir, en mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur verið í gangi á Kirkjusandi á sama tíma og eru íbúar þegar byrjaðir að flytja inn í nýbyggð fjölbýlishúsin í grendinni.
Saga þessa skemmda húss er löng og forvitnileg, en eftir að fiskverkun var hætt í því um miðjan áttunda áratuginn komst það í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga, sem endurnýjaði húsið, hækkaði það og innréttaði sem skrifstofuhúsnæði.
Íslandsbanki eignaðist svo húsið á tíunda áratug og færði höfuðstöðvar sínar í það árið 1995, en flutti svo alla starfsemi sína á brott eftir að rakaskemmdir og myglusveppur uppgötvuðust. Áður en ástand hússins varð ljóst í ársbyrjun 2016 hafði bankinn stefnt að því að stækka höfuðstöðvarnar um 7.000 fermetra og sameina alla höfuðstöðvastarfsemi sína á Kirkjusandi til framtíðar.