Hafsvæðið umhverfis afskekktustu, byggðu eyjar heims verður gert að friðlandi. Í því má engin dýr veiða – hvorki í lofti né legi – og öll vinnsla náttúruauðlinda innan þess verður bönnuð. Eyjaklasinn Tristan da Cunha í Suður-Atlantshafi, er breskt yfirráðasvæði og hafið við eyjarnar sem á að friða er þrisvar sinnum stærra en Bretland og fjórða stærsta verndarsvæði í hafi á jörðu, það stærsta í Atlantshafinu.
Eyjarnar eru nokkurn veginn miðja vegu milli Suður-Ameríku og Suður-Afríku. Til að komast þangað þarf að leggja á sig sjö daga bátsferð.
Lífríkið á og við eyjaklasann er stórbrotið. Þar má finna skjaldbökur, albatrosa, seli, hákarla og hvali, svo nokkur dæmi séu tekin. Á þessum slóðum eru ætis- og varpstöðvar allra þessara dýra og margra annarra.
Hvatamenn friðunarinnar eru sannfærðir um að verndunin eigi eftir að hafa jákvæð áhrif á humarveiðar eyjaskeggja sem eru smáar í sniðum og stundaðar utan hins friðaða svæði.
Svæðið við Tristan da Cunha verður hluti af Bláa beltinu, verndarverkefni á vegum breskra yfirvalda sem nær nú yfir um 7 milljónir ferkílómetra af vistkerfum hafsins.
Á einni eyjunni er virkt eldfjall. Á veturna er snjór á tindinum og albatrosar verpa í hlíðum þess. Á og við strendur eyjanna halda svo selir og mörgæsir til og undan þeim eru risavaxnir þaraskógar á hafsbotni. Á þessari eyju er aðeins að finna eina trjátegund, phylica arborea, sem einfaldlega er kölluð eyjartréð.
Á eyjunum er aðeins ein byggð, lítið þorp þar sem allir eyjaskeggjar, um 245 talsins, búa. Þorpið heitir Edinborg heimshafanna sjö og íbúarnir eiga rætur að rekja ýmist til Skotlands, Bandaríkjanna, Hollands eða Ítalíu.
Sá sem fyrstu uppgötvaði eyjarnar að því er talið er var portúgalski landkönnuðurinn Tristão da Cunha. Það var árið 1506 en búseta hófst ekki fyrr en árið 1816 þegar breskt herlið var flutt þangað til að gæta þess að Frakkar björguðu ekki Napóleon Bónaparte keisara úr útlegð á eyjunni Sankti Helenu sem var þó í yfir 2.000 kílómetra fjarlægð.
Herliðið snéri ekki aftur heim, að minnsta kosti ekki allir sem í því voru. Það voru svo afkomendur þeirra fyrstir fæddust þarna á hjara veraldar. Þeir lifðu á fisk- og humarveiðum en ræktuðu einnig kartöflur og áttu nokkrar kindur.
En þó að fáir menn búi þá Tritsan da Cunha er náttúran einstaklega fjölskrúðug og sjófuglar halda þar til í tug milljóna vís.
Í sjónum umhverfis eyjarnar synda svo hákarlar af tegund sem eru í gríðarlegri útrýmingarhættu en þeir kunna vel við sig í þaraskóginum þar sem þeir ala upp ungviði sitt. „Vistkerfin á þessum stað er hvergi annars staðar að finna í heiminum,“ hefur National Geographic eftir Enric Sala sem rannsakað hefur eyjarnar.
Ljóst þykir af gervitunglamyndum að fiskiskip hafa lagt leið sína á þetta viðkvæma svæði en núna þegar það er komið undir hatt Bláa beltisins verður hægt að setja meira fjármagn í strandgæslu og vernd.
Um 8 prósent af heimshöfunum njóta einhvers konar verndar. Aðeins um 2,6 prósent þeirra eru alfarið friðuð gegn veiðum. Í nýrri rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Science, er sýnt fram á að verndun efli fiskveiðar. Höfundar rannsóknarinnar segja að ef svæði þar sem veiðar eru bannaðar yrðu stækkuð um aðeins 5 prósent myndi það auka fiskafla á heimsvísu um að minnsta kosti 20 prósent.