Auglýsingatekjur fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar hafa dregist saman um 212 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins, vaxtaberandi skuldir þess hafa hækkað um 401 milljón króna vegna veikingu krónunnar og skuldbindingar við erlenda birgja – einkum vegna efniskaupa – hafa lækkað um 260 milljónir króna. Þá hafa reikitekjur félagsins fallið um 235 milljónir króna, sem er um 60 prósent samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra.Samtals metur Sýn því neikvæð áhrif heimsfaraldursins á rekstur sinn á 1,1 milljarð króna.
Þetta kemur fram í umsögn sem Páll Ásgrímsson, sem situr í framkvæmdastjórn Sýnar, hefur skilað inn um fjárlagafrumvarpið fyrir hönd Sýnar.
Þar segir einnig að Sýn sé nú þegar að reka fjölmiðla í almannaþjónustu án þess að fá sérstaklega greitt fyrir það úr ríkissjóði líkt og RÚV fær. Ef það eigi að auka ríkisstuðning til fjölmiðils sem rekin sé í almannaþágu geti sú fjárveiting allt eins runnið til fjölmiðla sem reknir eru af Sýn.
Sýn, sem var upphaflega fjarskiptafélag, keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum í lok ársins 2017. Um er að ræða ljósvakamiðla á borð við Stöð 2, Bylgjuna og tengdar útvarpsstöðvar og fréttavefinn Vísi. Félagið tapaði alls 402 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur tapað alls 2,1 milljarði króna frá upphafi síðasta árs.
Svar við umsögn RÚV
Ástæða þess að Sýn skilaði inn umsögn er sú að Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, gerði slíkt hið sama fyrir skemmstu. Þar kom fram að auglýsingatekjur RÚV verði um 300 milljónum króna lægri á árinu 2020 en áætlað var, beinn aukinn kostnaður fyrirtækisins vegna hlutverks RÚV í COVID-19 faraldrinum væri hátt í 80 milljónir króna og gengislækkun og aðrir liðir hafi hækkað fjármagnsliði fyrirtækisins um 90 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða RÚV verði því 470 milljónum krónum verri í ár en stefnt var að.
Staðan á næsta ári, 2021, verður mun alvarlegri að sögn Stefáns. Líkt og Kjarninn greindi frá í byrjun október er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að framlög til RÚV úr ríkissjóði verði lækkuð um 310 milljónir króna milli ára og verði rúmlega 4,5 milljarðar króna. Þau voru rúmlega 4,8 milljarðar króna á yfirstandandi ári.
Stefán sagði í umsögninni að nettó áhrif af framangreindri lækkun útvarpsgjaldsins væru mun meiri en 310 milljónir króna í ljósi þess að RÚV líkt og aðrir standi frammi fyrir verðlagshækkunum á næsta ári í sínum rekstri, þar á meðal vegna nýrra kjarasamninga. Því séu raunnáhrifin um 400 milljónir króna. Stefán sagði auk þess að áfram sé gert ráð fyrir verulegum samdrætti í auglýsingatekjum á næsta ári. „Árið 2021 mun því í heild vanta yfir 600 m. kr. í fjármögnun RÚV,“ skrifaði Stefán í umsögn sína.
Þessu þyrfti að mæta með „breytingum og samdrætti í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV.“
Segjast reka fjölmiðla í almannaþágu
Í umsögn Sýnar segir að fyrirtækið hafi mætt sínum samdrætti með margvíslegum hagræðingaraðgerðum sem hafi skert samkeppnisstöðu þess gagnvart RÚV.
Í heimsfaraldrinum hafi að mati Sýnar komið í ljós hversu mikilvægir fjölmiðlar félagsins væru í samfélaginu og ekki síður hlutverk þeirra í almannavörnum þegar kæmi að miðlun upplýsinga til landsmanna. “Þrátt fyrir breyttar aðstæður hafa fjölmiðlar Sýnar haldið úti öflugri fréttaþjónustu í sjónvarpi, útvarpi og á vefnum[...]Ekki er ofmælt að fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar gegni einstæðu hlutverki sem óháð og ókeypis fréttaveita á fjölmiðlum sem þorri almennings notar frá degi til dags. Einnig er sérstök áhersla lögð á framleiðslu innlends dagskrárefnis, sem sýnt er á miðlum félagsins, sem og gæða barnaefni. Þessu til viðbótar skal bent á að Sýn rekur eina landsdekkandi sjónvarpsdreifikerfi landsins og annast sjónvarpsdreifingu m.a. fyrir RÚV. Með vísan til framangreinds má færa fyrir því rök að Sýn reki nú þegar fjölmiðil í almannaþágu, þrátt fyrir að lögin um Ríkisútvarpið byggi á að einungis einn slíkur miðill sé rekin hér á landi.“
Vísa til fordæmis í Noregi
Þar sem sú upphæð sem fjárlög ætla til stuðning einkarekinna fjölmiðla, alls 392 milljónir króna, sé fjarri því nægjanleg til að dekka tekjutap þeirra vegna COVID-19 sé eðlilegt að fjárframlög til RÚV skerðist líka. „Með vísan til þessa er með öllu óverjandi ef RÚV verði bættur allur skaðinn eins og farið er á leit í umsögn RÚV enda myndi slík aðgerð einungis auka á þá samkeppnisröskun sem þegar leiðiraf tæplega 5 milljarða árlegri meðgjöf frá ríkinu og um 2ja milljarða auglýsingatekna sem stofnunin aflar sér ár hvert[...]í þessu samhengi skal bent á, að ef niðurstaðan verður sú að auka ríkisstuðning til fjölmiðils sem rekin er í almannaþágu getur sú fjárveiting allt eins runnið til fjölmiðla sem reknir eru af Sýn hf. í Noregi hefur TV 2 til að mynda verið útnefnt sem fjölmiðill starfandi í almannaþágu. Á þeim grundvelli fær TV 2 ríkisstyrk, sem talinn er samræmast ríkisstyrkjareglum á Evrópska efnahagssvæðinu.“
Í umsögn Sýnar segir ljóst að fréttastofa Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, haldi úti þjónustu sem sé sambærileg þeirri fréttaþjónustu sem TV2 annast í Noregi og fær ríkisstuðning fyrir. „Á það einkum við fréttaþjónustu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, sem stuðlar að fjölbreytni og fjölræði í fréttaflutningi á ljósvakamiðlum. Án hennar væri eingöngu fréttastofa RÚV starfandi á ljósvakamiðli, sem væri afleitt fyrir lýðræðislega umræðu og nauðsynlegt aðhald fjölmiðla. Virðist ekkert því til fyrirstöðu að íslenska ríkið tilnefni Sýn með almannaþjónustuhlutverk og geri í framhaldinu samning við fyrirtækið hliðstæðan þeim sem gerður hefur verið við TV2 í Noregi. Myndi slíkur samningur, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, falla undir hópundanþágu SGEI ákvörðunnar með sama hætti og í Noregi.“