Jeremy Corbyn, fyrrverandi formaður breska Verkamannaflokksins, hefur fengið inngöngu í flokkinn að nýju. Sir Keir Starmer, eftirmaður Corbyn í formannsstóli, vék honum úr flokknum 29. október síðastliðinn vegna viðbragða Corbyns við nýrri skýrslu frá mannréttindasamtökunum EHRC, sem skoðaði ásakanir um gyðingaandúð innan flokksins.
Samtökin komust að þeirri niðurstöðu að flokkurinn, undir stjórn Corbyns, væri ábyrgur fyrir pólitískum afskiptum af kvörtunum um gyðingaandúð frá félagsmönnum, láðst að þjálfa starfsfólk flokksins sem tók á móti slíkum kvörtunum á viðeigandi hátt og sömuleiðis gerst sekur um áreitni.
Corbyn greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld að hann hefði hlotið inngöngu í flokkinn á nýjan leik.
Í frétt Guardian af málinu, sem birt var þegar Corbyn var vikið tímabundið úr flokknum, sagði að Corbyn hafi brugðist við umrædrri skýrslu með þeim orðum að mál tengd gyðingaandúð innan Verkamannaflokksins hefðu verið blásin upp í pólitískum tilgangi, bæði af andstæðingum innan flokks og utan og fjölmiðlum.
Corbyn sagði þó jafnframt að hver sá sem segði að enga gyðingaandúð væri að finna innan flokksins hefði rangt fyrir sér og að hann vonaðist til þess að flokkurinn myndi innleiða ráðleggingar frá skýrsluhöfundum hratt og örugglega, þrátt fyrir að hann væri ekki sammála öllum niðurstöðunum.