Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði Ísland vera í annarri stöðu en önnur lönd þegar kemur að peningastefnu og þurfi þess vegna ekki að nýta sömu tæki og aðrir seðlabankar hafa gert til að bregðast við núverandi kreppu. Einnig segir hann ótækt að Seðlabankinn prenti peninga á sama tíma og hann grípur inn í á gjaldeyrismarkaði, auk þess að hann missi ekki svefn þótt einhverjir viðskiptabankar hækki vexti sína á langtímalánum.
Þetta kom fram á fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem fór fram í morgun. Á fundinum var gerð grein fyrir lækkun stýrivaxta bankans, en ákveðið var að lækka þá niður um 0,25 prósentustig og eru þeir því í 0,75 prósentum þessa stundina.
Á fundinum gaf Ásgeir sér tíma til að bregðast við þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um Seðlabankann undanfarið, en honum hafi þótt skorta skilning á peningahagfræði í litlum opnum hagkerfum í þeirri umræðu.
Sjóðsstjórar hafa gagnrýnt lítil kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, en hann hefur keypt innan við eitt prósent af þeim 150 milljörðum sem hann sagðist vera tilbúinn til að kaupa í svokallaðri magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing) til þess að halda langtímavöxtum niðri. Á síðustu mánuðum hafa langtímavextir á ríkisskuldabréfum hækkað nokkuð, en Íslandsbanki hækkaði í kjölfarið vexti sína á löngum íbúðalánum.
Seðlabankinn hafi aðra möguleika en önnur lönd
Ásgeir sagði hins vegar nokkrar ástæður vera að baki lítilla kaupa ríkisskuldabréfa hjá bankanum. Í fyrsta lagi væri Ísland í annarri stöðu en önnur lönd, þar sem hér séu jákvæðir stýrivextir og verðbólga. Þessi staða valdi því að Seðlabankinn hafi aðra möguleika til að bregðast við efnahagssamdrætti heldur en aðrir seðlabankar. Aðgerðum þeirra, til dæmis magnbundinni íhlutun og framsýnni leiðsögn, sé beitt eftir að stýrivextir séu komnir í núll.
„Það er þá mjög mikilvægt, þegar menn bera saman Seðlabanka Íslands við aðra seðlabanka, að þetta sé haft í huga. Við erum með jákvæða stýrivexti, við erum enn með að einhverju leyti klassísk vandamál sem tengjast peningum. Þannig að ef við lækkum vexti, þá lækkum við stýrivexti, eins og við gerðum núna. Við þurfum ekki að berja vaxtarófið með kaupum sisona, við erum í annarri stöðu,“ sagði Ásgeir.
Geta ekki gefið með annarri og tekið með hinni
Seðlabankastjórinn bætti einnig við að peningastefna í litlu opnu hagkerfi, líkt og Ísland er, þurfi að taka mið af gjaldeyrismarkaði þess. Á síðustu mánuðum hafi Seðlabankinn þurft að beita inngripum á gjaldeyrismarkaði til að halda genginu stöðugu, þar sem stórir erlendir fjárfestar hafi selt eignir sínar á Íslandi. Með inngripum Seðlabankans hafi peningar verið teknir úr umferð í hagkerfinu, sem Ásgeir segir að hafi þveröfug áhrif en kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, sem væri ígildi peningaprentunar:
„Að láta sér detta í hug að við förum að láta út krónur með annarri hendi til þess að taka á móti þeim með hinni á gjaldeyrismarkaði, það gengur ekki upp.“
Enginn héraðsbrestur þótt bankar hækki vexti
Þar að auki minntist Ásgeir á umfjöllun síðustu daga í kjölfar þess að tveir viðskiptabankar höfðu hækkað vexti sína á lánum sem séu með lengri vaxtabindingu. Samkvæmt Ásgeiri er slíkt „enginn héraðsbrestur,“ þar sem ekki hefur verið neinn vandi fyrir Seðlabankann að koma peningastefnunni áfram inn á fasteignamarkaðinn. „Ég skil ekki afhverju við ættum að missa yfir því,“ sagði seðlabankastjórinn.