Hart tekist á um aukin útgjöld vegna jólagjafa í Reykjanesbæ

Þegar atvinnuleysi í bæjarfélagi stendur í rúmum 20 prósentum, er þá réttlætanlegt að hækka útgjöld vegna jólagjafar bæjarstarfsmanna? Eða er það taktlaust? Tekist var á um þessar spurningar á hitafundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudaginn.

Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn.
Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn.
Auglýsing

Tekist var harkalega á um jólagjafir til starfsmanna Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag. Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, sem sitja í minnihluta í sveitarfélaginu, lögðu fram tillögu þess efnis að falla ætti frá því að auka kostnað bæjarins við jólagjafir um rúmar tvær milljónir á milli ára.

Jólagjöf bæjarins í ár, rétt eins og undanfarin ár, verður í formi árskorts í sund og gjafabréfs sem hægt er að nýta hjá fyrirtækjum og þjónustuaðilum sem eru hluti af verkefninu Betri bær í Reykjanesbæ. 

Andvirði hvers og eins gjafabréfs fer úr 10 þúsund krónum og upp í 12 þúsund krónur, en tillaga bæjarstjóra um þetta var samþykkt á bæjarráðsfundi í síðustu viku.

Á fundinum á þriðjudag komu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram með bókun þar sem alfarið var lagst gegn þessari hækkun, en fulltrúar flokksins höfðu setið hjá við afgreiðslu málsins í bæjarráði. 

„Í ljósi þess að 1 af hverjum rúmlega 4 einstaklingum á atvinnumarkaði í sveitarfélaginu eru án atvinnu og fjárhagslegra erfiðleika í heild hjá sveitarfélaginu, teljum við þessa hækkun taktlausa,“ sagði í bókun sjálfstæðismanna, sem lögðu til að upphæðin færi í staðinn til þeirra í sveitarfélaginu sem ættu í erfiðleikum með að ná endum sama og velferðarsvið bæjarins myndi annast þá úthlutun.

„Sorglegt að verða vitni að lýðskrumi sem þessu“

Meirihluti bæjarstjórnar, sem skipaður er bæjarfulltrúum Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar, hafði ekki heyrt þessa tillögu Sjálfstæðisflokks þegar hún var borin fram á fundinum og óskaði eftir því að gert yrði fundarhlé til þess að meirihlutinn gæti ráðið ráðum sínum. Meirihlutinn kom síðan fram með bókun þar sem tillögunni var hafnað og sjálfstæðismenn sakaðir um skammarlegt lýðskrum.

Auglýsing

„Starfsfólk bæjarins hefur unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður og alls ekki boðlegt að tengja jólagjafir til starfsmanna við stöðu velferðarmála. Lögð hefur verið til veruleg hækkun til málaflokksins og væri frekari stuðningur við velferðarmál sjálfstæð ákvörðun. Það er sorglegt að verða vitni að lýðskrumi sem þessu og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks til háborinnar skammar,“ sagði í bókun meirihlutans.

Nýjum botni náð

Í hönd fóru snarpar umræður um tillögu Sjálfstæðisflokksins. Jóhann Friðrik Friðriksson bæjarfulltrúi Framsóknarflokks sagðist hafa orðið vitni að ýmsu þrátt fyrir að stjórnmálaferill sinn væri ekki langur, en það að tengja jólagjafir starfsfólks við stöðu velferðarmála í sveitarfélaginu næði nýjum botni, að hans mati. Hann sagði að hækkunin væri „örlítill þakklætisvottur“ til starfsmanna sveitarfélagsins, sem hefðu lagt hart að sér í COVID-faraldrinum.

Anna S. Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sagðist lýsti yfir óánægju með að fulltrúar flokksins væru skammaðir eins og litlir leikskólakrakkar fyrir tillöguna og velti því upp hvort hún ætti kannski bara að hætta í bæjarstjórn, fyrst botninum væri náð. 


Baldur Guðmundsson bæjarfulltrúi flokksins sagði leitt að hjólað væri í manninn í bókun meirihlutans, sem væri einfaldlega að gagnrýna ákvörðun meirihlutans, en ekki þau sem persónur eða bæjarfulltrúa. Hann sagði að staðan væri einfaldlega sú að í Reykjanesbæ væri fjöldi fólks án atvinnu og það væru þau sem hefðu það verst, en ekki opinber starfsmenn, starfsfólk sveitarfélagsins sem hefði haldið sinni vinnu.

„Þá eigiði bara að hætta í bæjarstjórn“

Umræðurnar á þessum fjarfundi bæjarstjórnar voru hvassar á köflum. „Ef þið þolið ekki harða gagnrýni í umræðum þá lítur það út eins og þið séuð einhverjir píslarvottar. Þá eigiði bara að hætta í bæjarstjórn. Menn verða að standa á skoðunum sínum og þora að tala um það,“ sagði Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs í kjölfarið á því að fulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýndu bókunar meirihlutans.

Orðlaus yfir tali um lýðskrum

„Ég er eiginlega bara gjörsamlega orðlaus yfir þessum orðum meirihlutans um lýðskrum og um að botninum sé alveg náð,“ sagði Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Miðflokksins, sem tók undir bókun sjálfstæðismanna um jólagjöfina og sagði að með henni væri verið að koma til móts við fjölda fólks sem reiðir sig á fjárhagsaðstoð bæjarins. 

„Þessi tillaga er mikið réttlætismál fyrir það fólk,“ sagði í bókun Margrétar.

Fimm prósent eða 20 prósent hækkun?

Sjálfstæðismenn sögðu í sínum bókunum að um 20 prósent hækkun væri að ræða frá fyrra ári, en meirihlutinn í sínum bókunum að með þessari hækkun væri heildarvirði jólagjafarinnar að aukast um fimm prósent. 

Munurinn á þessu tvennu er sá að meirihlutinn tekur virði árskorts í Sundmiðstöðina Sunnubraut inn í reikningsdæmið, en minnihlutinn horfir bara á beinan útlagðan kostnað sveitarfélagsins við kaup á gjafabréfum, sem er sem áður segir að hækka úr 10 þúsund krónum upp í 12 þúsund krónur fyrir hvern af rúmlega 1.000 starfsmönnum bæjarins.

Samkvæmt upplýsingum frá Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar kostar árskortið 28.700 og heildarverðmæti jólagjafarinnar er því um 40 þúsund krónur fyrir starfsmanninn, þó að Sundmiðstöðin við Sunnubraut rukki bæjarsjóð einungis fyrir raunfjölda heimsókna. Með þeirri rukkun færist í reynd fé úr einum vasa í annan í rekstri sveitarfélagsins.

Sundkort kostar 28.700 kr. og með því verður heildarandvirði jólagjafar fyrir starfsmenn rúmar 40 þúsund krónur. Mynd: Visit Reykjanes.

Árið 2019 voru sundferðir starfsmanna bæjarins út á árskortin alls 9.170 talsins. Þann 1. nóvember voru heimsóknir starfsmanna, sem alls hafa virkjað 486 árskort á árinu af þeim tæplega 1.100 sem var útdeilt síðustu jól, orðnar 6.471 talsins.

„Ef við gefum okkur að starfsmaður noti sundkortið til fulls allt árið um kring og gjafakortið hjá Betri bæ er verðmæti jólagjafarinnar um kr. 40.000.- fyrir starfsmanninn en raunkostnaður lægri fyrir Reykjanesbæ vegna þess að hver viðbótar heimsókn í Sundmiðstöðina vegur ekki þungt í kostnaði,“ skrifar Kjartan til Kjarnans.

Sjálfstæðismenn telja í þessu ljósi rétt að horfa bara á hækkunina á gjafabréfinu og sagði bæjarfulltrúinn Baldur að meirihlutinn væri að reyna að merja það inn hjá fólki að um fimm prósent hækkun væri að ræða, þegar kostnaðurinn væri að aukast um 20 prósent. 

„Þetta minnti mig dálítið á Trump, þegar hann sagði „Hillary is a crook“, ef þú segir það nógu oft þá fer fólk að trúa því. Við erum að tala um útlagðan kostnað, þannig sáum við þetta,“ sagði Baldur á fundinum.

Vont ef starfsfólk upplifi að verið sé að skerða velferðarútgjöld vegna jólagjafa

Guðný Birna Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar gerði athugasemdir við að þessum tveimur málum væri stillt upp hlið við hlið sem svo að peningar sem færu í jólagjafir til starfsmanna væru peningar sem væru þá ekki að skila sér inn á velferðarsviðið. 

Hún sagði að þegar hefði verið ákveðið að hækka framlög til málaflokksins um 18 prósent og að ekki væri loku fyrir það skotið að framlög til velferðarmála kæmu til með hækka enn frekar í þeirri vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs sem nú stendur yfir á vettvangi bæjarstjórnar.

Hún sagðist hafa áhyggjur af því að starfsmenn Reykjanesbæjar sem heyrðu þessa umræðu bæjarstjórnar myndu sjá málið sem þannig að jólagjöfin þeirra væri á kostnað velferðarmálamála. „Ég fæ í brjóstið ef þau upplifa það þannig,“ sagði Guðný Birna.

„Mér finnst þetta ekki óeðlileg hækkun og mér finnst eðlilegt, í takt við álagsmælingar og annað sem við erum að sjá hjá starfsfólkinu okkar, að við bætum í jólagjafirnar. [...] Þetta er ekki mikið, en þetta er þakklætisvottur. 

Við erum að sinna velferðarmálunum vel og ég skil það alveg að þetta er ákveðin heildarupphæð sem er stór, en starfsfólkið okkar, mér finnst þau eiga það skilið og ég stend fyllilega á bak við það að standa við þessa upphæð,“ sagði Guðný Birna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent