iPhone 12 mini er með talsvert lakari rafhlöðuendingu en hinir símarnir sem nýlega komu út frá Apple og munu ekki henta kröfuhörðum. Þetta kemur fram í nýjasta hlaðvarpsþætti Tæknivarpsins en einn þáttastjórnandinn Atli Stefán Yngvason fjallaði um reynslu sína af símanum, sem og Apple Watch SE með LTE. Hann telur að úrið sé „nokkuð góður díll þannig séð þar sem það sem þú færð ekki hefur ekki það mikil áhrif á upplifun“.
Tæknivarpið greinir frá því að samfélagsmiðillinn Instagram hafi uppfært viðmót sitt og að flestum líki ekki við þær breytingar. „Reels“ sé komið í miðjuna neðst og plús takkinn færður upp. Greinilega sé verið að leggja áherslu á „reels“, sem sé svar Instagram við Tik tok.
Einnig er bent á í þættinum að Twitter hafi uppfært hjá sér og bjóði nú upp á „fleets“ sem eru sjálfeyðandi tíst með 24 tíma niðurtalningu, sem kallað sé „Twitter Stories“.
Ætla ekki að uppfæra
Þá greinir Tæknivarpið frá því að Big Sur Mac OS uppfærslan sé komin út og ætla þáttastjórnendur ekki að uppfæra sínar tölvur. „Einhverjir orðrómar eru um að eldri Macbook tölvur stoppi í miðri uppfærslu en það virðist mögulega vera skortur á þolinmæði. Þetta er stór útlitsuppfærsla og ekki allar góðar. Forritatáknin eru til dæmis forljót.“
Ótal margar umfjallanir skullu á YouTube í vikunni þegar fjölmiðlabanni Apple á nýjum Mac tölvum var aflétt. Samkvæmt Tæknivarpinu eru dómarnir nær einróma: „Þetta eru fáránlega góðar tölvur. Hraðar og með langa rafhlöðuendingu. Macbook Air með M1 örgjörva nær svipuðum afköstum og Macbook Pro 16 með Intel örgjörva (sem er tvöfalt dýrari tölva). Macbook fer létt með 4K myndbandsklippingar og getur loksins spilað tölvuleiki almennilega.“