Þingflokkur Pírata telur erfitt að segja til um það á þessu stigi hvort Ísland sé að feta rétta leið í baráttunni við faraldurinn eða hvort einhverju ætti að breyta varðandi þá stefnu sem unnið sé eftir. Í sameiginlegu svari til Kjarnans segir þingflokkurinn að „við höfum ekki fengið nægilega góðar upplýsingar til að meta það.“
„Það hefur þannig skort skýringar á því til hvers var litið við ákvarðanir í þessum efnum; hvaða hagsmunir voru lagðir á vogarskálarnar, hvernig meðalhófs og jafnræðis var gætt o.s.frv. Það er þó ótvírætt að daglegum tilfellum hefur fækkað þegar aðgerðir hafa verið hertar og því má segja að árangur hafi náðst við það að takmarka útbreiðslu veirunnar. Það sem er óljóst er hvort það hefði verið hægt að ná sama eða jafnvel betri árangri með öðrum ákvörðunum, og eins hvaða hagsmunum var fórnað til að ná umræddum árangri,“ segir í svari þingflokksins.
Svarið barst til blaðamanns eftir að umfjöllun birtist í Kjarnanum í gær um svör þingmanna sem bárust við tveimur spurningum sem lagðar voru fyrir alla þingmenn sem ekki sitja í ríkisstjórn í síðustu viku. Það gerði líka svar frá þingflokki Viðreisnar, sem greint er frá hér neðar í fréttinni.
Annars vegar var spurt hvort þingmenn teldu að sóttvarnaráðstafanir ættu að koma til umræðu og ákvörðunar á Alþingi í stað þess að vera á forræði ríkisstjórnarinnar eins og verið hefur. Hins vegar var spurt hvort þingmenn teldu Ísland hafa fetað rétta leið í glímunni við faraldurinn, eða hvort þörf væri á stefnubreytingu.
Hvað varðar fyrri spurninguna segist þingflokkur Pírata telja „eðlilegt að framkvæmdavaldið taki ákvarðanir um sóttvarnir innan ramma laganna en að Alþingi sinni sínu eftirlitshlutverki og fjalli um ráðstafanirnar,“ enda sé það hlutverk þingsins að fjalla um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar.
„Alþingi á ekki að taka ákvarðanir um einstaka sóttvarnarráðstafanir nema með almennum lagaheimildum. Alþingi á jafnframt að fara í ítarlega skoðun á þeim lagaheimildum sem stjórnvöld beita til að takmarka réttindi fólks og meta hvort þær séu fullnægjandi og bregðast við ef svo er ekki,“ segja Píratar, í svari sínu til blaðamanns.
Þingflokkurinn segir það á „ábyrgð ríkisstjórnarinnar að rökstyðja að þeirra ákvarðanir hafi verið viðeigandi miðað við aðstæður, með tilliti til þeirra takmarkana sem voru settar á líf fólks og það er hluti af starfi þingsins að hafa eftirlit með og fara yfir rökstuðning ríkisstjórnarinnar.“
Viðreisn: Kraftlitlar efnahagsaðgerðir valdi óvissu, kvíða og áhyggjum
Þingflokkur Viðreisnar sendi Kjarnanum einnig svör við spurningunum tveimur eftir að umfjöllunin birtist í gær. Sóttvarnaraðgerðir „eiga hiklaust að koma til umræðu inni á Alþingi og á það hefur skort,“ segir í svari þingmanna flokksins.
„Ráðherra setur reglugerð hverju sinni um ákvarðanir en aðkoma þingsins er gríðarlega mikilvæg, ekki síst eftir því sem þetta ástand lengist. Af þessum sökum hefur þingflokkur Viðreisnar haft frumkvæði að því að nú er búið að taka upp reglulega umræðu og skýrslugjöf frá heilbrigðisráðherra um sóttvarnarráðstafanir. Þetta gerðum við til að fá fram forsendur að baki ákvörðunum, að ráðherra geri grein fyrir hagsmunamati að baki og síðast en ekki síst til að stuðla að meiri festu og meiri fyrirsjáanleika. Fólkið og fyrirtækin í landinu eiga rétt á því,“ segir í svari þingflokks Viðreisnar.
Varðandi það hvort Ísland sé á réttri braut í glímunni við faraldrinum segir þingflokkur Viðreisnar að sóttvarnamálin séu faglega á könnu sóttvarnalæknis og tillögur hans fari til ráðherra. Verkefni stjórnmálanna sé „hvernig við vinnum úr samhengi þeirra ráðstafana við aðra hagsmuni, efnahagsaðgerðir og hvernig við verjum heilsu landsmanna að öðru leyti.“
Þingflokkur Viðreisnar segir að það hafi „vantað verulega upp á að hörðum sóttvarnaraðgerðum hafi fylgt kraftmiklar efnahagsaðgerðir“ og að ríkisstjórnin, með fulltingi Alþingis, hefði „átt að taka sér stærra hlutverk og axla ríkari ábyrgð.“
„Við höfum gagnrýnt hversu stjórnvöld hafa verið svifasein að kynna efnahagsaðgerðir samhliða sóttvarnarráðstöfunum og gefa betri fyrirheit og fyrirsjáanleika um hvað verður gert við tilteknar aðstæður. Það hefur skapað óvissu sem hefur skaðleg áhrif í atvinnulífinu og kvíða og áhyggjur sem getur haft varanlegar afleiðingar. Það hefur því skort á að staðið hafi verið við að gera meira en minna. Hér hefðum við viljað taka stór skref strax,“ segja þingmenn Viðreisnar.