Alþingi - Janúar 2018

Ætti að taka ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir á Alþingi?

Innan flokkanna þriggja sem mynda ríkisstjórn á Íslandi í dag er ekki einhugur um það hvernig skuli glíma við kórónuveiruna. Stöku þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa verið gagnrýnir á sóttvarnaaðgerðir og hvernig ákvarðanir um þær eru teknar. Kjarninn bauð þingmönnum að tjá sína skoðun á málinu.

Á stjórnmálasviðinu hafa sóttvarnir æ oftar komið til umræðu að undanförnu og ljóst er að skoðanir eru skiptar, meðal annars á meðal stjórnarþingmanna, meðal annars um það hvert hlutverk Alþingis eigi að vera í faraldrinum.

Fyrr í mánuðinum sagðist Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokks hættur „meðvirkni“ sinni með sóttvarnaráðstöfunum, sem hann kallaði stærstu skref sem hefðu til alræðis í Íslandssögunni. 

Annar þingmaður sama flokks, Sigríður Á. Andersen, hefur sagt að hún telji að Alþingi eiga að ræða og samþykkja þær ráðstafanir sem gripið sé til áður en þær komi til framkvæmda. Í gær steig hún svo fram sem einn þriggja forsvarsmanna hópsins Út úr kófinu, sem hefur sett upp vefsíðu og segist þar ætla að veita upplýsingar og „gefa fleirum tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast.“ 

Meðal annars segist hópurinn ætla að gefa sérfræðingum möguleika á að setja skoðanir sínar fram undir nafnleysi, svo þeir geti gert það „án þess að eiga það á hættu að verða fyrir aðkasti innan sinnar starfsstéttar.“ 

Einnig segist hópurinn ætla að „[h]afa frumkvæði að mótun heildstæðrar stefnu sem grundvallast á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks og lýðheilsustefnu ásamt staðreyndum um sjúkdóminn og meðhöndlun hans,“ sem verði raunhæf, framkvæmanleg og til þess fallin að lágmarka skaðann af kórónuveirufaraldrinum.

Auglýsing

Kjarninn bauð öllum þingmönnum á Alþingi, nema þeim sem sitja í ríkisstjórn, að koma því á framfæri hvert sjónarmið þeirra væri til þessara mála. Spurningarnar sem blaðamaður lagði fyrir þingmenn voru tvær og lutu beint að þeirri gagnrýni sem hefur verið sett fram af þessum tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokks á aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Annars vegar var spurt hvort þingmenn teldu að sóttvarnaráðstafanir ættu að koma til umræðu og ákvörðunar á Alþingi í stað þess að vera á forræði ríkisstjórnarinnar. Hins vegar var spurt hvort þingmenn teldu Ísland vera að feta rétta leið í glímunni við faraldurinn, eða hvort að breyta ætti þeirri stefnu sem hér hefur verið varðandi sóttvarnir.

Engin svör frá Pírötum, Viðreisn né Flokki fólksins

Fyrirspurnin var send á sjötta tug þingmanna fyrir um viku síðan, en einungis um fimmtungur þingmannanna svöruðu. Heimtur voru því ekki stórkostlegar.

Enginn þingmaður Viðreisnar, Pírata né Flokks fólksins svaraði fyrirspurninni og Brynjar Níelsson var eini þingmaður Sjálfstæðisflokks sem veitti blaðamanni svar, en það var reyndar bara áminning um að afstaða hans til spurninganna lægi fyrir í greinum og pistlum sem hann hefði skrifað og birt opinberlega.

Efnisleg svör bárust frá fulltrúum hinna fjögurra flokkanna á Alþingi; Miðflokki, Samfylkingu, Framsóknarflokki og VG.

Þingmenn VG: Framkvæmdavaldið með skýrar heimildir lögum samkvæmt

Svör þeirra þingmanna Vinstri grænna sem bárust til blaðamanns voru þau sem gefa til kynna skýrustu andstöðuna við ofangreind sjónarmið þingmanna Sjálfstæðisflokks.

„Sóttvarnir lúta lögum sem eru rædd og samþykkt á Alþingi. Þar er lögunum breytt og þá verða umræður og ákvarðanir teknar. Nú eru í gildi lög sem verið er að endurskoða með þeim tilgangi að bæta lögin og skýra sum ákvæðin. Einstakar aðgerðir eru ekki ræddar á Alþingi með samþykkt, breytingar á þeim eða höfnun í huga,“ skrifar Ari Trausti Guðmundsson þingmaður flokksins í svari sínu til Kjarnans.

Auglýsing

Ari Trausti segir aðgerðirnar koma til umræðu á þingi þegar forsætisráðherra eða aðrir ráðherrar eru til formlegra svara í fyrirspurnartíma eða vegna skýrslugjafar til þingsins. Hann segir að lögum samkvæmt sé það framkvæmdavaldið og stofnanir hins opinbera sem hafi ákvarðanir og aðgerðir með höndum í síbreytilegu umhverfi og vegna snöggra breytinga á áhættu vegna faraldursins.

„Við eigum ekki að sitja í þingsal og ræða um eða þrátta um, til afgreiðslu, hvort samkomubann varði 20 eða 100 manna hóp eða hvort einföld eða tvöföld skimun skuli viðhöfð á landamærunum,“ skrifar Ari Trausti, sem telur jafnframt að í öllum helstu dráttum verið að fara rétt að hér á landi í baráttunni gegn veirunni, „sérlega hvað varðar sveigjanlegar og tímabundnar en ört breytilegar aðferðir vástjórnunar.“ 

„Vissulega má sumt betur fara þegar reynsla hefur fengist og ég tel að vinna sem nú fer fram við endurskoðun sóttvarnarlaga sé þörf. Fyrirsjáanleiki er takmarkaður í alvarlegum heimsfaraldri. Almennt stöndum við okkur, landsmenn, þing og stjórnvöld, vel í glímunni við COVID-19,“ skrifar Ari Trausti.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður VG tekur í svipaðan streng og Ari Trausti og segist ekki endilega telja að hver og ein ákvörðun eigi að koma til umræðu og ákvörðunar í þinginu. 

„Ég tel að það myndi lengja og flækja ferlið þegar oft er lykilatriði að bregðast fljótt við. Þeir ferlar sem ráðherra hefur farið eftir vegna COVID-19 byggjast á gildandi sóttvarnarlögum og víðtækum heimildum ráðherra. Eins og við þekkjum hafa ítrekað komið upp aðstæður þar sem bregðast hefur þurft við með skjótum hætti til að reyna að koma í veg fyrir fjölgun smita eins og oft hefur verið rakið á fundum þríeykisins. Þetta er heimild sem við höfum falið framkvæmdavaldinu með lögum,“ skrifar Bjarkey til blaðamanns.

Við eigum ekki að sitja í þingsal og ræða um eða þrátta um, til afgreiðslu, hvort samkomubann varði 20 eða 100 manna hóp eða hvort einföld eða tvöföld skimun skuli viðhöfð á landamærunum

Hún bætir því að það hafi farið fram fjölmargar umræður um málefni sem tengjast COVID-19 á Alþingi. Ráðherrar hafi gefið skýrslur og setið fyrir svörum í fyrirspurnartímum í hverri viku þar sem Alþingi hafi haft tækifæri til að hafa eftirlit og aðhald gagnvart ráðherrum. Auk þess standi endurskoðun sóttvarnalaga yfir og þegar frumvarp um þær breytingar komi fram geti Alþingi rýnt lögin og athugað hvort það þurfi að breyta þessum verkferlum.

Bjarkey telur að við séum að feta rétta leið í glímunni við faraldurinn. „Það sýnir sig vel þessa dagana þegar faraldurinn er á hraðri niðurleið í samfélaginu í kjölfar hertra takmarkana. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa ávallt miðast að því að takmarka skaðann af veirunni. Það hefur hingað til verið talið best að grípa til hertra ráðstafana til styttri tíma svo ekki þurfi að  takmarka margs konar starfsemi til lengri tíma. Ákvarðanirnar hafa verið byggðar á bestu vísindalegu þekkingu sem við höfum og ég tel ekki að aðkoma Alþingis að þeim á vinnslustigi sé rétt leið,“ skrifar Bjarkey.

Einn þingmaður flokksins til viðbótar svaraði fyrirspurn Kjarnans, en sá sagði að það væri „fráleitt og ekki í samræmi við eðlilega verkaskiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds“ að framkvæmdin sem slík og einstakar ákvarðanir ríkisstjórnar, ráðherra og sóttvarnarlæknis væru teknar á Alþingi. 

Þingmaðurinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið í þessari umfjöllun, sagði Alþingi hafa veitt ríkisstjórn umboð til að fara með framkvæmdavaldið og minnti á að á ráðherrum hvíldi líka framkvæmdaskylda, sem þýddi að ráðherrar gætu sætt ábyrgð samkvæmt lögum vegna aðgerðaleysis eða vanrækslu. 

Einnig, segir þingmaðurinn, yrði aðhalds- og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdavaldinu marklaust ef Alþingi blandaði sér inn í athafnir stjórnsýslu og framkvæmdavalds, því þá væri það farið að hafa eftirlit með sjálfu sér. Varðandi það hvort Ísland væri á réttri braut sagðist þingmaðurinn telja að svo væri.

„Hundruðum mannslífa hefur án efa verið bjargað með því að taka þetta alvarlega og setja líf og heilsu landsmanna í forgang, borið saman við að gera lítið eða ekkert og við höfum ekki þurft að svara hroðalegum siðferðilegum spurningum eins og þeim hverjum ætti að veita þjónustu og hverjum ekki í sprungnu heilbrigðiskerfi,“ skrifar þingmaðurinn til blaðamanns.

Rétt væri að upplýsa formenn þingflokka fyrirfram um aðgerðir og forsendur

Ólafur Ísleifsson var eini miðflokksmaðurinn sem svaraði fyrirspurninni. Varðandi hlutverk Alþingis í sóttvarnaráðstöfunum telur hann að Alþingi hafi hlutverki að gegna og segir að rétt væri að upplýsa „formenn þingflokka á hverjum tíma um fyrirhugaðar aðgerðir í sóttvarnarskyni og forsendur þeirra.“ 

Ólafur telur ekki þörf á að breyta um stefnu í sóttvarnamálum: „Þriðja bylgjan sýnist á niðurleið og virðist mega rekja til aðgerða sóttvarnaryfirvalda. Ég treysti þeim sem gegnt hafa forystu á þessu sviði,“ skrifar Ólafur til Kjarnans.

Alþingi taki allar aðgerðir til umfjöllunar, þó ekki nema væri eftir á

Guðjón S. Brjánsson var eini þingmaður Samfylkingarinnar sem svaraði fyrirspurn Kjarnans. Hann sagði að eðli málsins samkvæmt þyrftu sóttvarnayfirvöld að hafa hraðar hendur varðandi ýmsar þær aðgerðir sem grípa þarf til á meðan á bráðaástandi stendur. 

„Það hafa verið rökin og skýringarnar á því að Alþingi eigi erfitt með að vera sá aðili sem tekur á öllum málum, eins svifaseint og það getur verið í sínum störfum. Mín skoðun er hins vegar sú að mikilvægt sé að Alþingi taki allar aðgerðir til umfjöllunar, þótt svo þær séu þegar komnar til framkvæmda og staðfesti,“ skrifar Guðjón til blaðamanns og bætir því við að margvíslegar aðgerðir sóttvarnalæknis hafi verið boðaðar með allnokkrum fyrirvara.

Auglýsing

„Framkvæmdavaldinu hefur í þeim tilvikum gefist gott tóm til að vega þær og meta. Með sama hætti getur Alþingi hæglega gert það ef tímaspönnin er 2–4 dagar. Það er brýnt að mínu áliti að skjóta tryggum lagastoðum undir ýmsar aðgerðir sem eru afdrifaríkar í samfélaginu með aðkomu löggjafans. Þetta verður enn tilfinnanlegra þegar tímabilið lengist, álag á einstaklinga, hópa og innviði eykst og óvissan um margvísleg atriði eru umtalsverð,“ skrifar Guðjón sömuleiðis.

Hann telur þó að almennt hafi verið haldið vel á spilunum af hálfu sóttvarnaryfirvalda og að „úr því sem komið er sé ekki ástæða til að venda okkar kvæði í kross.“

Þrír þingmenn Framsóknar sammála um að verið sé að feta rétta leið

„Ég tel okkur vera á réttri leið og eigum að halda áfram á sömu braut við ákvarðanatöku,“ skrifar Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknar í svari sínu við fyrirspurn Kjarnans og Silja Dögg Gunnarsdóttir samflokkskona hennar tekur í sama streng. „Óbreytt,“ segir einfaldlega í svari hennar til blaðamanns.

Halla Signý Kristjánsdóttir segir sömuleiðis að sóttvarnaráðstafanir séu í góðum höndum höndum hjá sóttvarnalækni, sem hafi sóttvarnalögin til fyrirmyndar við sínar ákvarðanir og starfi innan þeirra. Hún segir þó ekkert að því þær séu „yfirfarnar og rýndar til gagns,“ en það eigi ekki að gerast inni á Alþingi.

„Alþingi er löggjafarvald og þar ættu sóttvarnalög að sjálfsögðu að vera til umræðu og það er eðlilegt að eftir þessa reynslu að þau verði tekin upp og endurskoðuð,“ segir Halla Signý.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent