Gildandi lög gera hvorki ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið gefi Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála almennt tilmæli eða sérstök fyrirmæli um úrlausn einstakra mála. Dómsmálaráðuneytið hefur heldur ekki það hlutverk að meta hvort aðstæður í einstökum ríkjum séu slíkar að óforsvaranlegt sé að vísa fólki þangað.
Þetta segir í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata um endursendingar flóttafólks til Grikklands.
Helgi spurði meðal annars hvort ríkisstjórnin ætlaði að halda áfram að endursenda flóttafólk sem hlotið hefði alþjóðlega vernd í Grikklandi, „þrátt fyrir ástandið þar, sem m.a. var tilefni þess að ríkisstjórnin ákvað nýlega að taka á móti 15 flóttamönnum þaðan,“ en ákvörðun um að bjóða fimmtán sýrlenska flóttamenn sem áður höfðust við í Moria-flóttamannabúðunum á eyjunni Lesbos var kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar í lok septembermánaðar.
Spurning Helga Hrafns laut þannig að pólitískri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, en svar dómsmálaráðherra við henni vísar einungis til þess hvernig lögin og kerfið virkar í dag.
Blaðamaður heyrði í Helga Hrafni og spurði hvort hann hefði búist við því að fá beinskeyttara svar við spurningu sinni, í þessari þingfyrirspurn. „Já, ég bjóst nú eiginlega við því,“ segir Helgi Hrafn, en bætir við að mögulega hafi það verið „barnsleg einfeldni“ hjá sér.
Ísland hefur ekki sent umsækjendur um alþjóðlega vernd til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar allt frá árinu 2010, þar sem aðstæður þeirra sem bíða eftir að fá stöðu flóttamanns í Grikklandi þóttu og þykja óboðlegar.
Dyflinnarreglugerðin tekur þó einungis til þeirra sem hafa sótt um og bíða þess að fá svar við umsóknum sínum um alþjóðlega vernd.
Helgi Hrafn var að spyrja um stöðu hinna, sem hafa fengið stöðu flóttamanna í Grikklandi en leggja samt land undir fót og reyna að koma sér annað.
Rauði kross Íslands hefur ítrekað lýst þeirri afstöðu að aðstæður þeirra sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi séu sambærilegar eða verri en þeirra sem bíða afgreiðslu umsóknar sinnar þar í landi. Bágar aðstæður fólks sem hefur fengið stöðu flóttamanna í Grikklandi hafa margoft verið til umfjöllunar á undanförnum árum.
Öfugsnúið
Helgi Hrafn vekur athygli á því í samtali við blaðamann að þeir fimmtán Sýrlendingar sem Ísland ætlar að taka við frá Lesbos hafi fengið stöðu flóttamanna í Grikklandi. Á sama tíma og við séum að bjóða þetta fólk velkomið sé enn verið að senda aðra sem hafi stöðu flóttamanna í gríska kerfinu frá Íslandi til Grikklands.
Helgi Hrafn segir þetta öfugsnúið og telur þetta sýna fram á „algjört metnaðarleysi dómsmálaráðherra fyrir því að hafa eitthvað vit í þessu kerfi.“ Öll áhersla stjórnvalda sé á að reyna að „stytta málsmeðferðartímann og segja nei hraðar og láta eins og það sé til hagsbóta fyrir umsækjendur um vernd.“
Í svari ráðherra segir að mat á því hvort óforsvaranlegt sé að vísa fólki aftur til Grikklands sé í höndum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála og sé „ávallt reist á nýjustu landaupplýsingum sem liggja fyrir um aðstæður í viðtökuríki, svo sem skýrslum alþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka og annarra ríkja.“
„Í framkvæmd hafa Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, sem og systurstofnanir þeirra í öðrum Evrópuríkjum, ekki talið að aðstæður flóttafólks í Grikklandi, þ.e. þeirra sem hafa fengið viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn þar í landi, séu þannig að þær samrýmist skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins eða jafnist á við ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Áréttað er að flóttamannakerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi, og er ekki hugsað fyrir þá sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki,“ segir í svari Áslaugar Örnu.
Langflestir sem hingað leita með vernd hafa slíka í Grikklandi
Samkvæmt svari ráðherra sóttu alls 596 manns um alþjóðlega vernd hér landi á fyrstu 10 mánuðum ársins og voru 293 þeirra þegar með vernd í öðru ríki, langstærstur hluti í Grikklandi, eða 221 talsins.
Helgi Hrafn spurði hversu margir einstaklingar hefðu verið sendir aftur til Grikklands vegna þess að þeir hefðu fengið alþjóðlega vernd þar og fékk þau svör að þar væri um sex umsækjendur að ræða. Allir fóru þeir á fyrstu tveimur mánuðum ársins, fjórir sjálfviljugir en tveir í fylgd stoðdeildar ríkislögreglustjóra.
Þingmaðurinn spurði ráðherra jafnframt að því hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefði verið hafnað um efnislega meðferð umsókna sinna sökum þess að umsækjendur voru með alþjóðlega vernd í Grikklandi.
Fram kemur í svari ráðherra að alls hafi 34 verið hafnað á þeim grundvelli á fyrstu 10 mánuðum ársins. Í 26 af þessum 34 tilfellum voru ákvarðanir Útlendingastofnunar þó afturkallaðar, vegna breytts mats Útlendingastofnunar sem tekið var upp vegna COVID-19 faraldursins.
Umsóknir þeirra voru því teknar til efnislegrar meðferðar og ein til viðbótar send til efnislegrar meðferðar af kærunefnd útlendingamála. Fimm umsóknir eru í kæruferli og tveir umsækjendur hafa yfirgefið landið.