Fyrirhuguð turnbygging í nýju Glaðheimahverfi í Kópavogi verður að hámarki 15 hæðir, en ekki 25 hæðir eins og lagt var til í deiliskipulagstillögu sem var til umsagnar í sumar. Íbúar í grenndinni settu sig upp á móti hæð turnsins og sögðu hann meðal annars svipta þá sem búa í austurhluta hverfisins kvöldsól á svölum.
Fleiri en einn íbúi líkti turninum svo við „fokkmerki“, í umsögnum til skipulagsyfirvalda í bænum, sem féllust á að lækka turninn vegna athugasemda íbúa. Sú afgreiðsla var staðfest af bæjarstjórn Kópavogs í lok október.
Deiliskipulagstillagan, sem Kjarninn fjallaði um í lok júní, fól reyndar þegar í sér lækkun á fyrirhugaðri turnbyggingu frá því deiliskipulagi sem tók gildi árið 2009. Þar var nefnilega gert ráð fyrir 32 hæða turni.
En íbúum í grenndinni þótti lækkunin ekki nógu mikil og vildu ekki sjá fram á að allt að 115 metra há bygging, sú hæsta á Íslandi ef byggingarheimildin yrði fullnýtt, myndi rísa á þessum stað.
„Það verður að segjast að hugmyndin um tröllaukinn turn er dapurleg tilvísun til ársins 2007, minnisvarði um útþanda karlmennskuímynd og gildi ofríkis, „ég á‘etta, má‘etta, vil‘etta, get‘etta“, steyttur hnefi með löngutöng upp í loft, stærsta reðurtákn sem reist hefur verið til himna hérlendis, táknmynd tíðaranda sem ætti að grafa í jörð, en ekki upphefja að nýju,“ sagði í einni umsögn íbúa í grenndinni.
Í umsögnum sem bárust vegna deiliskipulagstillögunnar var nánast án undantekninga minnst á turninn mikla. Gegnumgangandi var það viðhorf að falla ætti frá því að leyfa svona háan turn á þessum stað, svo áfram gæti orðið gott að búa á þessum stað í Kópavogi.
Flott skipulag, en skrambans turninn
Margir voru ánægðir með nánast allt í tillögunni um Glaðheimahverfið, nema turninn: „Það er bara þessi skrambans 25 hæða turn sem allt ætlar að skemma og ég vil hér með koma á framfæri mikilli andstöðu minni,“ skrifaði til dæmis ein kona til skipulagsyfirvalda bæjarins.
Hún sagði turninn vera „mein“ sem ekki ætti heima í þessu hverfi, tæki sól frá mörgum íbúðum og gnæfði yfir eins og gott „fokkmerki“ til íbúanna.
Áhyggjur af vindstrengjum
Margir lýstu yfir áhyggjum af því að vindasamt gæti orðið við svona háa byggingu og vísuðu til þess að reynslan sýndi að oft mynduðust vindstrengir við háhýsi eins og eru á Smáratorginu í Kópavogi og við Höfðatorg í Reykjavík.
„Við álíka turna sem byggðir hafa verið á höfuðborgarsvæðinu hafa myndast miklir sviptivindar, oft svo miklir að fólk stendur ekki undir sér. Litlar upplýsingar liggja fyrir um áhrif þeirra en varla verður hægt að halda fram að áhrif þeirra verði minni en þegar land liggur mun lægra,“ sagði í einni umsögn.
Skipulags- og byggingardeild bæjarins lagði til að turninn yrði lækkaður um 10 hæðir sem áður segir. Ráðgerð hæð 15 metra turns er áætluð um 55 metrar sem þýðir að efsti punktur hans yrði í um 93 metra hæð yfir sjávarmáli, enda liggur Glaðheimahverfið nokkuð hátt í landinu, í óbyggðri hæðinni austan Reykjanesbrautar.