Stjórnir Kviku banka, TM og Lykils samþykktu fyrr í dag að sameina félögin, með fyrirvara um að Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og hluthafar samþykki samrunann. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félögunum á vef Kauphallarinnar.
Kjarninn hefur áður fjallað um samrunaviðræður fyrirtækjanna, en þær hófust formlega í lok septembermánaðar. Fréttablaðið greindi hins vegar fyrst frá fyrirhugaðri sameiningu í byrjun júlí síðastliðnum, en þar sagði að stjórnir félaganna beggja hafi staðið í samræðum í nokkrar vikur, þótt enn hefði ekki náðs samkomulag um að hefja formlegar viðræður.
Samkvæmt tilkynningunni í dag hafa stjórnir allra félaganna nú farið yfir niðurstöður viðræðnanna og samþykkt samrunasamning. Samningurinn felur í sér að TM færi vátryggingastarfsemi sína í dótturfélag sitt, TM tryggingar hf, sem verður svo í kjölfarið dótturfélag nýs sameinaðs félags af Kviku, TM og Lykli.
Í samrunasamningnum eru eftirtaldir fimm fyrirvarar við að að samrunanum verði:
- FME veiti samþykki fyrir samrunanum, sbr. 106 gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002;
- FME veiti Kviku samþykki fyrir eignarhaldi á virkum eignarhlut í TM tryggingum hf., TM líftryggingum hf. og Íslenskri endurtryggingu hf., sbr. 58 gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016;
- Samkeppniseftirlitið ógildi ekki samrunann eða setji íþyngjandi skilyrði að mati samrunaaðila, sbr. V. kafla samkeppnislaga nr. 44/2005;
- Hluthafar samþykki samrunann í samræmi við 93. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 á löglega boðuðum hluthafafundum Kviku, TM og Lykils; og
- Yfirfærsla vátryggingastofns TM til TM trygginga hafi verið framkvæmd í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir samrunaaðila.
Marinó Örn Tryggvason og Sigurður Viðarsson, forstjórar félaganna, munu áfram gegna stöðum sínum. Marinó Örn Tryggvason verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri TM trygginga. Fjármála- og rekstrarsviði Kviku verður skipt upp í tvö svið eftir samrunann; Ragnar Páll Dyer mun gegna starfi framkvæmdastóra fjármálasviðs og Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lykils, mun hefja störf hjá Kviku og gegna starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs.