Í nýframlögðu frumvarpi um fjáraukalög er lögð til 400 milljón króna fjárheimild til ríkissjóðs vegna kaupa á bóluefni gegn COVID-19.
Í greinargerð frumvarpsins segir að talið sé að einstaklingar þurfi tvo skammta af bóluefninu og að gera þurfi ráð fyrir því að bólusetja þurfi 75 prósent þjóðarinnar. Því þurfi um 550 þúsund skammta af bóluefni og búist er við því að hver skammtur muni kosta um fjórar evrur, eða um 640 krónur á núvirði.
Miðað við þessar forsendur muni bóluefnið kostað um 352 milljónir króna. Við þá upphæð bætist flutningskostnaður og önnur gjöld.
Pfizer-bóluefnið mun kosta meira
Í umfjöllun vefsíðunnar Observer á mánudag var til að greint frá því að hver skammtur af bóluefni Pfizer, sem talið er líklegt að verði fyrst að koma á markað, muni kosta um 20 Bandaríkjadali, 2.680 krónur, í heildsölu samkvæmt því sem fram kemur í samningum þess við bandarísk stjórnvöld. Bóluefnið verður þó frítt fyrir þá hópa sem fá það fyrst.
Evrópusambandið undirritaði fyrr í þessum mánuði samning við Pfizer um kaup á 200 milljón skömmtum af bóluefninu, með möguleika á kaupum á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Íslandi er tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins.
Slíkur fjöldi væri þó ekki nægur til að mynda hjarðónæmi gegn veirunni hér á landi, en heilbrigðisráðuneytið hefur áður gefið að út að 550 þúsund skammta þyrfti til að það myndist. Bóluefnið frá Pfizer dugir því einungis fyrir tæpum helmingi af því.
Aðgangur að öðrum bóluefnum líka tryggður
Moderna, hitt fyrirtækið sem hefur þróað bóluefni með allt að 95 prósent virkni gegn COVID-19, mun selja hvern skammt til ríkisstjórna á tíu til 50 Bandaríkjadali, 1.340 til 6.700 krónur, samkvæmt því sem forstjóri Moderna, Stephen Bancel, sagði við þýska dagblaðið Welt am Sonntag nýverið. Bandaríkin hafa samið um að fá skammta á 15 Bandaríkjadali, 2.010, og Evrópusambandið er í samningaviðræðum um að kaupa skammtinn á verði sem er undir 25 Bandaríkjadölum, 3.350 krónur.
AstraZeneca, sem tilkynnti nýverið að bóluefni þess væri með allt að 90 prósent virkni en þurfti svo að draga í land og undirgangast frekari rannsóknir, mun selja sitt bóluefni á undir fjóra Bandaríkjadali, um 536 krónur, skammtinn.
Evrópusambandið hefur skrifað undir kaupsamning um 400 milljón skammta frá AstraZeneca. Í fyrri samningum hefur sambandið lýst því yfir að bóluefnunum verði dreift á öll aðildarríki þess með tilliti til mannfjölda, en heilbrigðisráðuneytið hefur einnig tilkynnt að aðildarríki EES-svæðisins fái sama aðgang að þeim, þar á meðal Ísland.
Hálfur milljarður í að dreifa bóluefni til þróunarríkja
Í fjáraukalagafrumvarpinu er líka lagt til að fjárheimildir til þróunarsamvinnu verði auknar um 500 milljónir króna. Sú hækkun skýrist alfarið af framlagi Íslands til þróunar og dreifingar bóluefnis við COVID-19 til þróunarríkja, í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar landsins þess efnis í júní síðastliðnum.
Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Ísland hefur líkt og nágrannaríkin, þ.m.t. Norðurlöndin, Bretland og Þýskaland, talað fyrir mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu um þróun bóluefnis og jafns aðgengi ríkja óháð greiðslugetu þeirra með það að leiðarljósi að tryggja öllum jarðarbúum aðgengi, jafnt þróunarríkjanna sem þróaðri ríkja. Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa áréttað að bóluefni eigi að vera fyrir alla og hafa norrænu utanríkisráðherrarnir m.a. skrifað grein um mikilvægi slíks samstarfs og hlutverks Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Alþjóðaónæmisaðgerðasjóðsins (GAVI) og samtaka um nýsköpun vegna viðbúnaðar við farsóttum (CEPI). Á fjarfundi á vegum Alþjóðaónæmisaðgerðasjóðsins 4. júní sl. hét forsætisráðherra að leggja sjóðnum og samtökum um nýsköpun vegna viðbúnaðar við farsóttum til 500 m.kr. vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þar af renna 250 m.kr. til samtakanna til þróunar bóluefna en hinar 250 m.kr. renna til Alþjóðaónæmisaðgerðasjóðsins sem sér um forkaupsrétt og dreifingu bóluefnis til þróunarríkja. Hvort tveggja fellur undir samstarfsverkefni um að hraða aðgengi að bóluefni (COVAX) sem er í samstarfi framangreindra aðila í baráttunni gegn COVID-19.“