Fréttaskýringaþátturinn Heimskviður, sem hefur verið á dagskrá Rásar 1 undanfarið rúmt ár, hættir göngu sinni í desember vegna hagræðingaraðgerða hjá Ríkisútvarpinu sem kalla á uppstokkun í dagskránni. Þetta staðfestir Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, við Kjarnann. Um er ræða þátt sem hefur miðlað ítarlegum umfjöllunum um erlend málefni.
Þröstur segir ljóst að einhverjar frekari breytingar verði á dagskrá Rásar 1 vegna þeirra hagræðingaraðgerða sem Ríkisútvarpið þurfi að ráðast í nú. „Við erum að vinna í þeim málum þessa dagana,“ segir Þröstur í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns.
Nýlega var þremur fastráðnum fréttamönnum Ríkisútvarpsins sagt upp störfum vegna hagræðingaraðgerða og stöðugildum á fréttastofu RÚV mun fækka um alls níu frá því sem var í upphafi þessa árs. Erlenda deild fréttastofunnar hefur komið að vinnslu Heimskviða ásamt dagskrárgerðarfólki Rásar 1, en þátturinn er í umsjón þeirra Birtu Björnsdóttur og Guðmundar Björns Þorbjörnssonar.
Nýir fréttaþættir í hádeginu á virkum dögum
Þröstur segir að þrátt fyrir Heimskviður sem slíkar séu að hverfa á braut verði erlendum fréttaskýringum áfram fundinn staður í dagskrá Rásar 1.
„Við erum að setja á dagskrá nýjan þátt í hádeginu sem heitir einfaldlega Hádegið. Þar er um að ræða fréttaþátt sem inniheldur fréttaskýringar, þar á meðal erlendar í anda þeirra sem voru í Heimskviðum, viðtöl og umræður,,“ segir Þröstur.
Áðurnefndur Guðmundur Björn og Katrín Ásmundsdóttir munu hafa umsjón með nýja hádegisþættinum í sameiningu. „Bæði eru þau Guðmundur Björn og Katrín ákaflega metnaðarfullt útvarpsfólk sem við höfum mikla trú á. Við erum sannfærð um að þessi þáttur eigi eftir að styrkja verulega dagskrána og fréttatengda umfjöllun á Rás 1,“ segir Þröstur í svari sínu til Kjarnans.
Í svari dagskrárstjórans segir einnig að Rás 1 muni í upphafi næsta árs setja í loftið nýjan vikulegan þátt sem innihalda muni erlendar fréttaskýringar.
Munu þurfa að endurflytja meira efni en hingað til
Spurður út í aðrar breytingar sem verið sé að grípa til að grípa til Rás 1 til að minnka kostnað nefnir Þröstur að veðurfréttir í hádeginu verði framvegis lesnar af umsjónarmönnum Hádegisins, en ekki sérfræðingum Veðurstofu Íslands.
Þá segir hann að ljóst sé að það muni þurfa að endurflytja meira efni á Rás 1 en gert hefur verið hingað til.
„Það er mjög miður en sömuleiðis er það algerlega ljóst að ekkert er við því að gera þegar undan hallar í rekstrinum," segir Þröstur.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrr í mánuðinum að útlit væri fyrir að rekstrarniðurstaða RÚV yrði 470 milljónum verri í ár en stefnt var.
Árið 2021 væri svo ráðgert að það vantaði yfir 600 milljónir króna í fjármögnun RÚV. Fyrirsjáanlegt væri að þessu þyrfti að mæta með breytingum og samdrætti í dagskrárgerð og fréttaþjónustu.