Fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík hefur ákveðið að fela uppstillingarnefnd að ganga frá framboðslistum flokks í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fyrir næstu alþingiskosningar, sem fram eiga að fara í september á næsta ári. Ekkert prófkjör verður því hjá flokknum í borginni.
Þessi ákvörðun var tekin á fundi fulltrúaráðsins síðasta fimmtudag. Í tilkynningu þaðan sem barst fjölmiðlum í dag segir að kallað verði eftir tilnefningum frá flokksfélögum í Reykjavík í efstu sæti listanna. Að því loknu muni fara fram könnun meðal flokksfólks í borginni þar sem merkja skuli við þá einstaklinga sem þátttakanda hugnast best af þeim sem tilnefnd eru.
Niðurstöðurnar verða ekki birtar opinberlega, en uppstillingarnefnd á að hafa þær til hliðsjónar í sinni vinnu, sem á að ljúka í febrúar. Þá á uppstillingarnefndin að leggja listana fyrir allsherjarnefnd fulltrúaráðsins til samþykktar.
Þessi aðferð, samkvæmt tilkynningu fulltrúaráðsins, hefur verið kölluð „sænska leiðin“ og verið notuð hjá Sósíaldemókrataflokknum í Svíþjóð.
Samfylkingin er með einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæmi í dag, Helgu Völu Helgadóttur í Reykjavík norður og Ágúst Ólaf Ágústsson í Reykjavík suður. Flokkurinn fékk enga þingmenn kjörna í Reykjavíkurkjördæmunum í kosningunum árið 2016.