Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hvetur til aukinnar fjárfestingar í menntun, rannsóknir og þróun og aðgerðir í þágu græns hagvaxtar hér á landi, svo að íslenskt vinnuafl sé betur í stakk búið til þess að vinna í nýjum atvinnugreinum. Enn fremur bendir stofnunin á að tímabundin einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja ætti að vera gerð ótímabundin svo að auðveldara verði fyrir fyrirtæki að ná sér á strik aftur að kreppunni lokinni.
Bjartsýnni en áður
Þetta kemur fram í nýrri hagspá samtakanna sem birt var á vef þeirra í gær. Spáin er á bjartsýnni nótum en aðrar greiningar alþjóðastofnana sem gefnar hafa verið út á síðustu mánuðum, en OECD segir að bjartari tímar séu framundan í efnahagsmálum.
Samkvæmt samtökunum hefur verstu áhrifum kreppunnar verið afstýrt, þökk sé umfangsmiklum aðgerðum stjórnvalda. Flestir framleiðsluþættir séu enn óskaddaðir þrátt fyrir kreppuna, en það eykur líkurnar á skjótum efnahagsbata fyrir fólk, fyrirtæki og lönd um allan heim.
Hvetja til stórra aðgerða
Samtökin búast við að hagkerfi heimsins verði búið að ná fyrri styrk undir lok næsta árs. Þó er varað við því að efnahagsbatinn gæti verið ójafn og að kreppan komi niður á þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu. Í því tilliti hvetur OECD stjórnvöld til að bregðast við auknum ójöfnuði og fátækt með afgerandi hætti.
Einnig hvetja samtökin til þess að stjórnvöld beiti efnahagslegum björgunarpökkum óspart og styrki grunninnviði samfélagsins, auk þess sem það styrki alþjóðasamvinnu, þar sem samhæfðar aðgerðir séu nauðsynlegar til að binda endi á yfirstandandi faraldur.
Seðlabankinn ætti að vera á varðbergi
Einn kafli í greiningunni er helgaður Íslandi, en þar búast samtökin við 7,7 prósenta samdrætti í ár, sem er nokkuð bjartsýnni en spá Seðlabankans. Í kaflanum er minnst á að krónan hafi veikst um fimmtung frá byrjun faraldursins í mars og að verðbólga og verðbólguhorfur fari hægt vaxandi. Samtökin bentu á að Seðlabankinn ætti að vera á varðbergi svo að verðbólgan haldist nálægt yfirlýstum markmiðum, sérstaklega þar sem vöruverð sé farið að hækka aftur
Hægur bati í ferðaþjónustu og auknar ríkisskuldir
Samtökin búast við hægum bata í ferðaþjónustunni, þar sem fólk muni veigra sér við að ferðast þangað til að bólusett verði fyrir veirunni á flestum stöðum heimsins. Því sé minni útflutningi spáð á næsta ári heldur en árið 2019, en gert er ráð fyrir að aukinn kraftur verði aftur á móti settur í fjárfestingu hins opinbera.
OECD býst einnig við að opinberir skuldir muni nema nær 100 prósentum af landsframleiðslu innan tveggja ára, en það er hærra skuldahlutfall en náðist í kjölfar bankahunsins árið 2008.
Einfaldara regluverk og fjárfestingar í menntun
Samkvæmt OECD gætu margar kerfislægar breytingar hjálpað til við að hraða efnahagsbata sem þjóni öllum landsmönnum. Sem dæmi um þetta nefna samtökin að breyta ætti tímabundinni einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í ótímabundinni, svo að auðveldara verði fyrir atvinnulífið að taka við sér þegar kreppan líður undir lok.
Einnig nefna samtökin að efla ætti samkeppni í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, líkt og þau minntust á í mati sínu sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið birti fyrir tveimur vikum síðan. Í því mati hvöttu samtökin m.a. til afnáms löggildingar á bakara og ljósmyndara.
Með öflugri samkeppni og jafnari stöðu innlendra fyrirtækja gegn erlendum samkeppnisaðilum þeirra telja samtökin að atvinnulífið hér á landi gæti styrkst til muna. Samhliða því mælir OECD með fjárfestingu í menntun, rannsóknir og þróun og verkefni sem stuðla að grænum hagvexti. Að mati samtakanna gætu slíkar fjárfestingar bætt hæfni vinnuaflsins hér á landi og gert það betur í stakk búið til að vinna í öðrum nýjum atvinnugreinum.