Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis boðar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að hann muni að óbreyttu ekki geta stutt nokkur þeirra mála sem ráðherrar Vinstri grænna og Framsóknarflokks hafa lagt fram á Alþingi að undanförnu.
Hann segir ákveðin stjórnarfrumvörp illa samræmast þeirri hugmyndafræði sem hann hafi aðhyllst og barist fyrir; sem byggist á trú á frelsi einstaklingsins, því að tryggja valddreifingu og forðast miðstýringu. „Oft þarf ég að sveigja eitthvað af leið en ákveðin grunnprinsipp verða ekki brotin. Ekki þegar kemur að þvingunaraðgerðum gagnvart sveitarfélögum, ekki við stofnun miðhálendisþjóðgarðs, fjölmiðlafrumvarpi og ekki við endurskoðun sóttvarnalaga. Listinn er (óþægilega) langur,“ skrifar Óli Björn.
„Ógeðfelld“ hugmyndafræði valdboðs að baki sveitarfélagafrumvarpi
Í grein sinni fjallar hann sérstaklega um frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem felur í sér að lágmarksfjöldi íbúa íslenskra sveitarfélaga skuli vera 1.000. Hann segir frumvarpið byggja á „hugmyndafræði valdboðs og gengur gegn hugmyndafræði sjálfsstjórnar og frelsis sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt á.“
Hann segir að um það verði ekki deilt að sameining og fækkun sveitarfélaga geti verið ákjósanleg og skynsamleg fyrir íbúana, en markmiðið sé hins vegar ekki að fækka sveitarfélögum heldur styrkja og efla þjónustu við borgarana. Þar að auki hafi sveitarfélögum fækkað hressilega.
„Árið 1990 voru þau 204 talsins en eru nú 69. Víða eru viðræður um sameiningu. Þær viðræður eru á forsendum íbúanna sjálfra og þeir einir taka ákvörðun. Embættismenn í Reykjavík stjórna ekki ferðinni,“ ritar Óli Björn og bætir við að hugmyndafræði valdboðsins sem liggi að baki lögþvingaðri sameiningu sé „ekki aðeins ógeðfelld heldur byggist hún á misskilningi og/eða vísvitandi blekkingum.“
„Hagkvæmni sveitarfélaga og gæði þjónustu við íbúanna er ekki í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Fjárhagsleg staða ræðst miklu fremur af hæfileikum sveitarstjórnarmanna og hvernig þeim tekst að uppfylla skyldur sínar en fjölda íbúa,“ skrifar þingmaðurinn, sem telur best að „halda valdinu í heimabyggð.“
„Löngunin til að stýra öllu úr 101-Reykjavík er sterk“
Varðandi frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar auðlinda- og umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð segir Óli Björn að í flestu sé hugmyndin heillandi, en að hugmyndafræði „stjórnlyndis og miðstýringar“ megi ekki ráða för.
„Löngunin til að stýra öllu frá 101-Reykjavík er sterk. Hætta er sú að valdið sogist úr heimabyggð til örfárra einstaklinga sem neita að skilja hvernig hægt er að lifa í sátt við náttúruna, verja hana og nýta auðlindir á sama tíma,“ ritar Óli Björn.
„Forsendan er að skipulagsvald sveitarfélaga sé virt og umráða- og nýtingaréttur íbúanna, sem í gegnum aldirnar hafa verið gæslumenn náttúrunnar, haldist. Einkaframtakið og eignarrétturinn hafa verið mikilvæg vörn fyrir náttúruna,“ skrifar Óli Björn.
Hann segist munu styðja hugmyndina um miðhálendisþjóðgarð ef hún verði byggð á „skynsamlegri nýtingu auðlinda hálendisins, frjálsri för almennings, virðingu fyrir eignarréttinum, frumkvöðlarétti og sjálfsstjórn sveitarfélaga í skipulagsmálum.“
Fjölmiðlafrumvarpið fram komið á ný með svipuðu sniði
Eins og áður segir minnist Óli Björn í grein sinni einnig á fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn og lagt fram á þingi í þriðja sinn.
Aftur er lagt til styrkjakerfi í svipaðri mynd og í fyrri tvö skiptin sem frumvarp Lilju hefur litið dagsins ljós, en frumvarpið hefur tvívegis sofnað svefninum langa í nefndarstarfi vegna andstöðu Óla Björns og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokks. Þeir hafa talað gegn styrkjakerfi og lagt til að skattkerfinu verði í staðinn beitt til þess að styðja við einkarekna fjölmiðla og einnig að dregið verði úr umsvifum Ríkisútvarpsins á móti.
Samkvæmt frumvarpi Lilju yrðu styrkir til fjölmiðla alls tæpar 400 milljónir króna á ári og þeim útdeilt með sama hætti og gert var í ár, þegar ákveðið var að styrkja einkarekna fjölmiðla um allt að 25 prósent af útlögðum ritstjórnarkostnaði vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Enginn fjölmiðill gæti þó fengið meira en 25 prósent af heildarupphæðinni, eða hæst tæpar 100 milljónir. Þegar kórónuveirustyrkjunum var úthlutað í haust skiptu Árvakur, Sýn og Torg, þrjú stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins, með sér rúmum 250 milljónum af þeim 400 milljóna króna stuðningi sem einkareknir fjölmiðlar fengu.
Brynjar veður í fjölmiðlafrumvarpið
Þessi þrjú frumvörp, auk frumvarps endurskoðuðum sóttvarnalögum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram, virðast ekki falla í kramið hjá Óla Birni í óbreyttri mynd. Og andstaða við stjórnarfrumvörp sem nýlega hafa verið lögð fram er boðuð víðar innan þingflokksins.
Brynjar Níelsson þingmaður flokksins tjáir sig um fjölmiðlafrumvarp Lilju á Facebook í dag og segir hægt að líkja einkareknum fjölmiðlum í dag við fárveikan og kvalinn sjúkling.
„Læknirinn, menntamálaráðherra, með aðstoð hjúkrunarfræðinganna í ríkisstjórn, ætlar að dæla ópíum í sjúklinginn í stað þess að skera meinið burt eða halda því í skefjum svo hægt sé að lifa með því,“ skrifar Brynjar og vísar þar til Ríkisútvarpsins sem meinsins, sem hrjái frjálsu fjölmiðlana.