Framsóknarflokkurinn yrði minnsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði í dag, en fylgi við hann mælist 8,6 prósent í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Það eykst lítillega milli mánaða.
Næst minnsti flokkurinn á þingi yrði Miðflokkurinn, sem varð til þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson klauf sig úr Framsókn fyrir síðustu kosningar. Miðflokkurinn mælist með 8,8 prósent fylgi sem er minnsta fylgi flokksins frá því í febrúar 2019, þegar hann var enn í djúpri fylgisdýfu í kjölfar Klaustursmálsins svokallaða.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins samkvæmt Gallup og mælist með 23,7 prósent fylgi. Fylgi flokksins hefur verið mjög stöðugt það sem af er ári og nánast það sama síðustu þrjá mánuði.
Samfylkingin er næst stærsti flokkur landsins og mælist nú með 17,1 prósent fylgi. Flokkurinn hefur ekki mælst með svo mikið fylgi frá því í janúar síðastliðnum. Píratar koma þar á eftir og mælast nú með 12,4 prósent fylgi, sem er nánast það sama og flokkurinn mældist með fyrir mánuði síðan.
Viðreisn tapar allra flokka mest milli mánaða, fer úr 11,6 prósentum í 9,7 prósent. Það er í fyrsta sinn frá því í maí sem fylgi flokksins mælist undir tíu prósentustigum.
Flokkur fólksins mælist með 4,1 prósent fylgi og Sósíalistaflokkur Íslands með 3,7 prósent. Slík niðurstaða er ólíkleg til að skila flokkunum tveimur mönnum á þing.
Könnunin var gerð dagana 2. til 30. nóvember. Heildarúrtaksstærðin var 9.351 og þátttökuhlutfall var 53,6 prósent.
Næst verður kosið til þings í september 2021.