Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði á Alþingi í morgun undir liðnum störf þingsins að koma þyrfti í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að koma nálægt völdum og að flokkurinn hefði alltaf „beitt bolabrögðum“ þegar þess þyrfti til að koma sínu fólki að. Misnotkun á valdi og bolabrögð hefðu verið einkenni flokksins í langan tíma. Hann hvatti fólk til að hætta meðvirkni með misnotkun á valdi.
„Formaður Dómarafélags Íslands fjallaði í fjölmiðlum í gær um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar sagði hann vandann vera þann þegar stjórnvöld beita einhverjum bolabrögðum til að koma sínu fólki að. Þrír af þeim dómurum sem Landsréttarmálið snýst um hafa verið endurskipaðir. Þeir stóðu upp úr dómarasæti sínu og settust í næsta sæti.
Ímyndið ykkur hvernig það myndi líta út í dómsal. Sá sem kemur fyrir dómara í leit að réttlæti og sanngirni klórar sér aðeins í hausnum og spyr: Afsakið, er nokkur hætta á því að dómarinn sé mér óvilhallur? Dómarinn svarar: Já, afsakið. Og hann stendur upp og sest í stólinn hliðina: Núna er þetta allt í lagi, það var bara vandamál þegar ég sat í hinum stólnum,“ sagði Björn Leví.
„Blái gljáinn mun alltaf skína í gegn“
Spurði hann hvort Íslendingar ættu ekki rétt á dómurum og dómstólum sem hægt væri að treysta að kæmu vel fram við borgara landsins og á réttlátan og sanngjarnan hátt.
„Hversu vel treystir þú dómurum sem þú veist að komust í dómarasæti með pólitískum bolabrögðum? Hversu vel treystir þú dómurum sem sitja í bláum sætum? Hvernig er dómgreind þeirra dómara sem sitja í þessum blámáluðu sætum og vita að allt sem þau gera litast af málningunni á stólnum þeirra, sama hversu heiðarlega þau rækja störf sín. Hvítþvottur eins og stólaskipti gengur ekki upp.
Blái gljáinn mun alltaf skína í gegn því að bláminn fylgir dómurum og skipunum þeirra en ekki sætunum. Það sér hver sem vill sjá það. Það er því ekki nema eitt hægt að gera og það er augljóst, það hefur verið augljóst frá upphafi. Það sem þarf að gerast er að dómararnir þurfa að víkja. Það er ekki flóknara en það,“ sagði hann.
Vill að hlutirnir séu settir í samhengi
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu undir sama lið í morgun og fjallaði hann einnig um landsréttarmálið. „Þegar rætt um dómsniðurstöður sem varða dómaraval árið 2017 þegar Landsréttur var skipaður í fyrsta sinn er mikilvægt að hafa í huga hver hinn raunverulegi lögfræðilegi ágreiningur er í málinu. Hann snýst um atriði sem varðar það hvort þáverandi dómsmálaráðherra hafi fullnægt rannsóknarskyldu með nægilega skýrum hætti þegar hún ákvað að gera tilögu um dómara sem byggði á því að dómarareynslu var gefið meira vægi en öðrum þáttum sem hæfnisnefnd hafði byggt á.“
Hann sagði að það yrði að hafa þetta í huga þegar „við hlustum á stóryrði einstakra þingmanna“ og vísaði þar til orða Björns Levís. „Þetta skulum við hafa í huga þegar menn blása þetta út eins og hér á Íslandi hafi verið framin stórkostleg mannréttindabrot af því að maður sem hafði játað á sig tiltekið brot var dæmdur af dómara sem hafði verið metinn hæfur af matsnefnd og metinn hæfari af hálfu dómsmálaráðherra en einhverjir aðrir. Við skulum setja hlutina aðeins í samhengi hvað þetta varðar.
Hitt er svo annað mál að auðvitað verður íslenska ríkið að efna samningsskuldbindingar sínar gagnvart mannréttindasáttmálanum og greiða viðkomandi manni þann kostnað sem kveðið er á um í dómsorði í niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstólsins en auðvitað verðum við síðan í framhaldinu að velta fyrir okkur og ræða hvernig við viljum haga dómaraskipan til framtíðar. Ég er ekki viss um að við séum komin til botns í þeirri umræðu,“ sagði þingmaðurinn að lokum.