Niðurstöður nýrrar íslenskrar rannsóknar benda til að notkun reyktóbaks og rafrettna séu ekki algengari meðal COVID-19 sjúklinga en almennt gerist á Íslandi og að slík notkun sé ekki tengd alvarlegri einkennamynd við greiningu COVID-19. Tilvist undirliggjandi lungnasjúkdóma hefur hins vegar skýr tengsl við alvarlegri einkenni við greiningu.
Greint er frá niðurstöðum í grein í nýjustu útgáfu Læknablaðsins.
Fram kemur að heimsfaraldur COVID-19 sjúkdóms af völdum SARS-CoV-2 hafi valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfi um allan heim og aðgerðir vegna hans valdið miklu efnahagstjóni. Alvarlegum sjúkdómi fylgi yfirleitt lungnabólga og fylgikvillar frá lungum séu algengir í alvarlega veikum sjúklingum. Tengsl lungnasjúkdóma, reykinga og rafrettunotkunar við algengi og alvarleika COVID-19-sjúkdóms séu óljós.
Notuð voru gögn úr fyrstu viðtölum á COVID-19 göngudeild Landspítala við 1.761 sjúkling með COVID-19 sem fylgt var eftir af spítalanum. Reiknuð var tíðni reykinga, rafrettunotkunar og undirliggjandi lungnasjúkdóma í þessum hópi, eftir aldursflokkum og klínískri flokkun lækna á alvarleika sjúkdómseinkenna. Kannað var hvort munur væri á tíðni þessara áhættuþátta milli aldurshópa og milli einkennaflokka.
Meðalaldur sjúklinga var 41 ár. Flestir sjúklingar voru á aldursbilinu 35 til 54 ára, eða 38 prósent. Fámennasti aldurshópurinn var svo 18 ára og yngri, eða 10 prósent. Um 6 prósent sjúklinga reyktu við greiningu og 4 prósent notuðu rafrettur. Einungis 8 prósent höfðu undirliggjandi lungnasjúkdóm. Flestir sjúklingar voru með vægan COVID-19-sjúkdóm, eða 68 prósent. 22 prósent höfðu miðlungsalvarlegan sjúkdóm og 10 prósent voru með alvarlegan sjúkdóm. 74 lögðust inn á sjúkrahús, eða 4,2 prósent.
Kynjahlutfall var nokkuð jafnt í öllum aldurshópum, þó var hlutfall karla hæst í yngsta aldurshópnum, eða 54 prósent, og lægst í hópnum milli 35 og 54 ára, eða 47 prósent. Flestir reyktu í aldurshópnum 35 til 54 ára, eða 7 prósent. Enginn undir 18 ára reykti. Flestir sem notuðu rafrettur voru á aldrinum 18 til 34 ára, eða 8 prósent. Hlutfall sjúklinga með lungnasjúkdóma við greiningu fór hækkandi með hækkandi aldri; frá 2 prósent í yngsta aldurshópnum upp í 13 prósent meðal sjúklinga yfir 55 ára, að því er fram kemur í greininni.
Sjúklingar með lungnasjúkdóma með alvarlegri einkenni við greiningu COVID-19
„Niðurstöður okkar benda til þess að sjúklingar með lungnasjúkdóma séu með alvarlegri einkenni við greiningu. Við túlkun þessara niðurstaða er rétt að hafa í huga að það voru fáir í yngri aldurshópum sem voru með undirliggjandi lungnasjúkdóm. Þær rannsóknir sem þegar hafa verið birtar um áhrif lungnasjúkdóma á gang COVID-19 sjúkdóms eru ólíkar þessari rannsókn. Annars vegar voru þessar rannsóknir gerðar á inniliggjandi sjúklingum og hins vegar er verið að skoða áhrif lungnasjúkdóma á afdrif sjúklinga en ekki á alvarleika einkenna við greiningu,“ segir í greininni.
Rannsókn sem gerð var á inniliggjandi sjúklingum víðsvegar um Kína sýndi fram á að langvinn lungnateppa er áhættuþáttur fyrir alvarlegri COVID-19 sjúkdómi, það er þörf fyrir innlögn á gjörgæslu eða öndunarvélarstuðning eða andlát af völdum sjúkdómsins, að því er fram kemur í rannsókninni.
„Að síðustu ber að hafa í huga að þær niðurstöður sem hér birtast eru án tillits til blöndunarþátta. Þannig gætu til dæmis tengsl reykinga við marga áhættuþætti alvarlegs COVID-19-sjúkdóms valdið því að fólk sem reykir hafi síður útsett sig fyrir smiti en aðrir. Þó eru ótvíræðir styrkleikar niðurstaðnanna til staðar því að gögnum þessarar rannsóknar var safnað á samræmdan, framskyggnan hátt og þau ná til allra greindra COVID-19 tilfella í fyrstu bylgju faraldursins á Íslandi,“ segir í greininni.
Hægt er að lesa greinina í Læknablaðinu í heild sinni hér.