Sænsk sóttvarnaryfirvöld gera ráð fyrir að fá bóluefni gegn COVID-19 fyrir tvær milljónir Svía á fyrsta ársfjórðungi 2021, en það jafngildir fimmtungi af mannfjöldanum. Svíar hafa milligöngu um kaup Íslendinga á bóluefni, en búist er við því að þrír fjórðu Íslendinga muni verða bólusettir á fyrsta fjórðungi næsta árs.
Samkvæmt frétt sem birtist í sænska ríkisútvarpinu SVT í gær hefur sænska landlæknisembættið skilgreint áhættuhópa sem munu hafa forgang að bóluefninu. Í fyrsta forgangsflokki eru 570 þúsund manns, en sá flokkur inniheldur heilbrigðisstarfsfólk og gamalt fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Heilt yfir eru þó 2,6 milljónir Svía flokkaðar í áhættuhópum gegn veirunni og hafa þeir því einhvern forgang.
Hefjast í janúar en taka tíma
Johan Carlson, landlæknir Svíþjóðar, sagði í viðtali við SVT að bólusetningarnar hjá fólki í þessum áhættuhópum geti hafist strax í janúar á næsta ári, en nokkra mánuði þurfi þar til allir innan þessara hópa gætu fengið bóluefni. Á fyrsta fjórðungi næsta árs er búist við að fjórar milljónir skammta muni koma til landsins og verður það nóg til að bólusetja tvær milljónir Svía.
Íbúafjöldi Svíþjóðar nær rétt rúmum tíu milljónum, þannig að einungis er búist við að um fimmtungur þeirra verði bólusettur á næsta ársfjórðungi. Þetta er nokkru minna en stjórnvöld hérlendis vonast til að náist á sama tíma, en heilbrigðisráðuneytið tilkynnti fyrr í vikunni að vonir standi til þess að 75 prósent þjóðarinnar verði bólusett innan næstu fjögurra mánaða.
Bóluefnið sem Íslendingar munu fá mun koma frá Svíþjóð, þar sem landið hefur ákveðið að framselja bóluefni sem það fær frá Evrópusambandinu til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Auk Íslands fá því Noregur og Liechtenstein einnig bóluefni frá Evrópusambandinu með milligöngu Svíþjóðar.