Góðar fréttir af bóluefni gegn COVID-19 geta haft ýmis áhrif á efnahagslífið, m.a. á gengi hlutabréfa og á krónuna vegna væntinga um að ferðaþjónustan muni brátt taka við sér á ný. En þegar búið verður að bólusetja þorra þjóðarinnar verður fyrir hendi óvissa um hvað gerist.
Þetta sagði Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann fór yfir fjóra óvissuþætti sem framundan eru.
Í fyrsta lagi er að sögn Gylfa óvissa um hversu margir erlendir ferðamenn munu koma hingað á næsta ári því ómögulegt sé að segja á þessari stundu hvaða áhrif faraldurinn og takmarkanir vegna hans muni hafa á áhuga fólks til að ferðast til annarra landa yfir höfuð.
En áhrifin á þjóðarbúið munu líka stýrast af því hversu mikið Íslendingar eiga eftir að ferðast til útlanda. „Það sem hjálpaði okkur í sumar er að þessi kaupmáttur var læstur inni í landinu og hélt lífinu í mörgum atvinnugreinum,“ segir Gylfi. „En segjum sem svo að Íslendingar verði bólusettir fyrr en stærri þjóðir og þeir einfaldlega fari, þá höfum við hvorki erlenda ferðamenn né innlenda sem er ekki gott fyrir atvinnulífið.“
Gylfi segir að svo bætist við þriðji óvissuþátturinn sem sé sá flóknasti. „Atvinnulíf hefur verið að breytast síðustu áratugi með bættri tækni. Líf okkar er að breytast ár frá ári og það virðist vera eins og COVID hafi flýtt þessum breytingum mjög mikið. Líf okkar hefur breyst á örfáum mánuðum sem hefði annars gerst á mörgum árum.“ Hann nefnir fjarvinnu í þessu sambandi og vísbendingar erlendis frá um breyttar áherslur t.d. í hvar fólk velji að búa.
Gylfi segir að þótt jafnvægi verði í annars vegar ferðum útlendinga hingað og Íslendinga til útlanda sé ekki hægt að segja hvaða áhrif þetta nýja ástand, þessi mögulega nýj lífsstíll í samfélaginu, muni hafa.
Fjórði óvissuþátturinn snýst um efnahagsástandið fyrir COVID. „Það er ekki eins og það hafi allt verið í sómanum hér í febrúar,“ segir Gylfi. Atvinnuleysi sé nú 10 prósent en það var orðið 5 prósent fyrir COVID og hafði þá farið hækkandi frá sumrinu 2018. Gylfi segir að ef farsóttin hefði ekki komið til væri ekki þar með sagt að engin niðursveifla hefði orðið. Mörg fyrirtæki, sem voru farin að eiga erfitt í byrjun árs, hefðu væntanlega sagt upp fólki og hætt starfsemi.
Sár gætu myndast
Gylfi segir að búið sé að rannsaka áhrif farsótta fyrri tíma á efnahagslífið og að oft taki það hratt við sér. Sem dæmi tók hann að í kjölfar spænsku veikinnar hafi orðið gríðarleg uppsveifla í Bandaríkjunum. „Þannig að það er ekki ástæða til að búast við viðvarandi áhrifum [farsóttarinnar] nú en það er samt sár sem myndast. Það eru fyrirtæki sem detta út, það eru fyrirtæki sem eru skuldugri núna en áður.“ Þá séu skuldir ríkissjóðs einnig að aukast. „En svo er það sem maður hefur kannski mestar áhyggjur af er að viðkvæmustu þjóðfélagshóparnir, eins og krakkar í skólum, sem missa nú eitt ár úr skóla, upp á þeirra félagsþroska og menntun. Þarna gæti verið að myndast annað sár.“
Þannig að þegar „eðlilegt ástand“ næst, með tilkomu bóluefnis, standa eftir meiri skuldir hins opinbera og fyrirtækja, atvinnuleysi og möguleg áhrif á viðkvæma hópa í samfélaginu.
„Farsóttin lamar þær atvinnugreinar sem krefjast þess að fólk hittist. Þar er ferðaþjónustan,“ segir Gylfi. En af því að hún barst svo aftur inn í landið í haust þá hafi öll menningarstarfsemi, persónuleg þjónusta og annar rekstur líka orðið fyrir skelli.
Gylfi segir að það séu greinar sem hafi hagnast á ástandinu. Það eru greinar sem eru að selja vörur sem Íslendingar hefðu annars nálgast í útlöndum og greinar sem selja vörur sem Íslendingar sækjast nú eftir af því að þeir eru ekki að fara erlendis. „Það hefur myndast annars konar hagkerfi,“ segir Gylfi. Almenningur hafi eytt peningum sínum í annað en áður, s.s. í þjónustu iðnaðarmanna, í byggingavöruverslunum og í fataverslun innanlands. „Það sem hefur komið í veg fyrir að aðrar greinar hafi orðið fyrir miklu áfalli er í fyrsta lagi það að þessir 200 milljarðar sem Íslendingar eyddu erlendis árið 2019 hafa farið, ekki allir en eitthvað af þeim, í kaup á vörum og þjónustu hér innanlands.“ Þá hafi ríkið komið með verulegt framlag til að bæta höggið hjá því fólki sem missti vinnuna. Það aftur örvar eftirspurn eftir innlendri þjónustu og vörum. Einnig hafi vaxtalækkanir haft mikil áhrif. Fólk hafi endurfjármagnað lánin sín.
Gylfi segir að margir bindi vonir við að hótel og veitingastaðir muni fyllast af erlendum ferðamönnum í vor og sumar. „En næstu fimm ár er kannski ekki skynsamlegt að byggja á þessari grein.“
Hann segir ferðaþjónustuna hafa verið búhnykk og að gjaldeyririnn sem hún skapaði hafi breytt stöðu íslensks efnahagslífs – borgað upp erlendar skuldir og fleira. „Þannig að þessi góða staða sem við höfum í dag er að stóru leyti og vegna þessara gjaldeyristekna sem þarna komu inn.“
Samkeppni við láglaunalönd
Ókosturinn við að byggja á ferðaþjónustu fyrst og fremst sé að í þeirri samkeppni er verið að keppa við láglaunalönd. „Svo það að hafa ferðaþjónustu sem svo mikilvæga grein í landi þar sem laun eru að meðaltali mjög há, ójöfnuður í alþjóðlegum samanburði lítill, býður hættunni heim. Að það verði órói á vinnumarkaði, eins og við sáum, að fólk sem er í láglaunastörfum í greininni er að bera sig saman við aðra. Síðan er samið um launahækkanir. Þær launahækkanir sem samið var um vorið 2019, ég tel alveg víst að þær kipptu grundvellinum undan rekstri veitingastaða í miðbænum. Þetta eru ekki margar krónur en samt, ef þú ert að selja máltíðir til að greiða starfsfólkinu þá þarftu að selja svo mikið til að hafa upp í þennan kostnað.“
Þannig að það að stóla fyrst og fremst á ferðaþjónustu til framtíðar er ekki skynsamlegt að hans sögn. „Það væri mjög gagnlegt að það væri horft aðeins lengra fram í tímann og sjá hvernig fyrirtæki eiga að þrífast hérna og búa til einhverja umgjörð, þar sem passað er upp á menntakerfið, fjármögnun fyrirtækja. Þannig að einkaframtakið búi til fyrirtæki sem eru búa til mikið virði og góð störf. En ekki bara láta hlutina gerast.“