Donald Trump hringdi í ríkisstjóra Georgíu í gærmorgun og hvatti hann til að grípa til aðgerða svo ógilda mætti sigur Joe Bidens í ríkinu. „Ef við sigrum í Georgíu mun allt annað ganga eftir,“ skrifaði Trump á Twitter í gær. „Ég mun auðveldlega vinna í Georgíu“ ef Brian Kemp ríkisstjóri leyfir einfalda endurskoðun undirskrifta“ skrifaði forsetinn einnig og bætti við: „Hvers vegna segir þessi „repúblikani“ nei?“
Í símtalinu bað Trump ríkisstjórann Brian Kemp, sem er repúblikani, um að fyrirskipa endurskoðun á undirskriftum póstatkvæða. Um er að ræða enn ein persónuleg afskipti forsetans af kosningunum sem fram fóru í byrjun nóvember.
Í frétt Washington Post um málið er haft eftir nafnlausum heimildarmönnum að í símtalinu hafi Trump þrýst á Kemp að boða til sérstaks þingfundar þar sem þingmenn myndu ógilda niðurstöður kosninganna og velja kjörmenn sem myndu styðja Trump í kjörmannaráðinu.
As I told the President this morning, I’ve publicly called for a signature audit three times (11/20, 11/24, 12/3) to restore confidence in our election process and to ensure that only legal votes are counted in Georgia. #gapol https://t.co/xdXrhf1vI2
— Brian Kemp (@BrianKempGA) December 5, 2020
Samkvæmt heimildum blaðsins hafnaði Kemp beiðni forsetans enda hefur hann ekki vald til að krefjast endurskoðunar á kjörseðlunum þó að hann hafi opinberlega sagst styðja slíka skoðun.
Talsmaður ríkisstjórans staðfestir að hann hafi rætt við Trump í síma.
Kosningateymi Trumps höfðaði í kjölfar kosninganna mál í mörgum ríkjum þar sem það taldi svindl hafa átt sér stað. Á föstudag tapaði teymið slíkum málum í sex ríkjum, m.a. í Arizona og Nevada.
Trump er sagður sérstaklega ósáttur við kosningaúrslitin í Georgíu og í frétt Washington Post segir að hann hafi reiðst mjög er yfirvöld þar staðfestu sigur Bidens.