Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hækkaði langmest allra fyrirtækjanna í Kauphöllinni í dag, eða um 6,96 prósent. Hækkunin kemur í kjölfar frétta um að lággjaldaflugfélagið Ryanair hafi fest stórkaup á 737-MAX vélum hjá flugvélaframaleiðandanum Boeing síðastliðinn laugardag. Verð á hlutum í flugfélaginu hefur nær tvöfaldast á einum mánuði.
Rúmur fjórðungur allra viðskipta sem áttu sér stað í Kauphöllinni í dag voru í Icelandair, en þau náðu um 641 milljón króna við lokun markaða. Gengi flugfélagsins hækkaði úr 1,64 í 1,69 og hefur það ekki verið jafnhátt síðan um miðjan ágústmánuð. Á einum mánuði hafa hlutabréf í félaginu hækkað um tæp 90 prósent, en verð á hlutum í flugfélaginu fór lægst í 0,89 í byrjun nóvember.
Mbl.is greindi frá kaupum Ryanair á vélunum um helgina, en samkvæmt þeirri frétt er þetta fyrsta stóra pöntunin á þeim síðan ákveðið var að leggja þeim í 20 mánuði vegna gruns um að vélarbilun hafi valdið tveimur flugslysum sem kostuðu 346 manns lífið.
Þessar fréttir, ásamt vel heppnuðu prufuflugi hjá American Airlines, urðu til þess að hlutabréf í flugvélaframleiðandanum Boeing hafa hækkað nokkuð á undanförnum dögum. Stutt er í að vélarnar geti farið aftur í loftið, en þær fengu aftur flugleyfi frá bandarískum flugmálayfirvöldum í síðasta mánuði.
Icelandair gerir svo ráð fyrir því að MAX-vélarnar verði hluti af áætlun flugfélagsins næsta vor, samkvæmt fjárfestatilkynningu þeirra við síðasta hlutafjárútboð.