Sjálfstæðisflokkurinn bætir vel við sig á milli mánaða í könnun MMR, en fylgi flokksins mælist nú 27,1 prósent. Það er næst mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu. Eina skiptið sem MMR mældi hann stærri var í mars síðastliðnum, í fyrstu könnun eftir að COVID-19 faraldurinn skall á Íslandi, þar sem fylgið mældist 27,4 prósent. Yrði þetta niðurstaða kosninga myndi Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig næstum tveimur prósentustigum frá kosningunum 2017.
Samfylkingin tapar að sama skapi fylgi milli mánaða og mælist nú með 13,8 prósent fylgi. Það er næstum þremur prósentustigum minna fylgi en hún mældist með fyrir um mánuði og einungis 1,7 prósentustigi yfir því sem flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum fyrir rúmum þremur árum.
Hinir stjórnarflokkarnir tveir, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn, eru ekki í góðri stöðu. Þeir mælast báðir með 7,6 prósent fylgi.Það er 2,3 prósentustigum minna en Framsókn mældist með fyrir mánuði en nánast það sama og í nóvember. Saman hafa flokkarnir tapað 12,4 prósentustigum af fylgi á kjörtímabilinu, á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt við sig 1,9 prósentustigi.
Níu flokkar næðu inn
Líkt og vanalega þegar Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig þá skreppur Miðflokkurinn saman milli kannana. Hann mældist með 9,1 prósent fylgi í nóvember en nú segjast sjö prósent kjósenda styðja Miðflokkinn. Það er lægsta fylgi flokksins í könnunum MMR frá því að fyrirtækið hóf að mæla flokkinn, ef frá eru taldir þeir þrír mánuðir sem fylgdu í kjölfar Klaustursmálsins svokallaða í lok árs 2018 og byrjun árs 2019.
Flokkur fólksins hressist verulega milli mánaða og mælist nú með 6,2 prósent stuðning. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með hjá MMR í heilt ár. Sósíalistaflokkur Íslands bætir sömuleiðis við sig prósentustigi milli mánaða og mælist með fimm prósent fylgi. Það myndi líkast til duga honum inn á þing og gera það að verkum að fá atkvæði myndu detta niður dauð, en einungis 2,34 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa önnur framboð en þau níu sem nefnd eru hér að ofan.
Könnunin var framkvæmd 26. nóvember - 3. desember 2020 og var heildarfjöldi svarenda 944 einstaklingar, 18 ára og eldri.