Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um Hálendisþjóðgarð á Alþingi í gær og gekk málið til nefndar í kjölfar umræðu sem stóð til miðnættis. Ólík sjónarmið þingmanna voru viðruð í ræðustól Alþingis, eins og við mátti búast og nokkuð hart tekist á.
Eins og Kjarninn sagði frá í gærkvöldi hélt forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, innblásna ræðu um málið, en hann hefur setið í þverpólitískri nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs fyrir hönd Vinstri grænna.
Nefndin hafði í megindráttum það hlutverk að setja fram tillögur að útfærslu þjóðgarðsins, þ.e. skilgreina mörk, leggja línur um fyrirkomulag og áherslur sem útfærðar yrðu í lagafrumvarpi um þjóðgarðinn. Nefndin skilaði skýrslu fyrir rösku ári síðan, sem allir pólitískt skipaðir nefndarmenn undirrituðu nema fulltrúi Miðflokksins.
Í starfi þessarar nefndar voru haldnir tugir kynningar- og samráðsfunda með hagsmunaaðilum, sveitarfélögum og fleirum, víða um land. Sömuleiðis stóð yfir samráðsferli jafnóðum og nefndin starfaði í samráðsgátt stjórnvalda, þangað sem 122 umsagnir bárust í heildina við einstaka þætti vinnunnar.
Sjötíu og tvær umsagnir bárust svo um frumvarpsdrögin þegar þau lágu frammi í samráðsgátt stjórnvalda. Ljóst er að margir hafa skoðanir á útfærslunni og ekki allir eru sáttir með það verði samþykkt í óbreyttri mynd.
Undirskriftum er nú safnað á netinu gegn öllum áformum um stofnun hálendisþjóðgarðs. Á vef stjórnarráðsins hefur verið sett upp upplýsingasíða þar sem algengum spurningum um stofnun hálendisþjóðgarðs og það sem felst í frumvarpinu er svarað.
Steingrímur sagðist í ræðu sinni í gær trúa því að hægt yrði að breikka stuðning um þjóðgarðinn í meðförum þingsins en sagðist að sama skapi ekki vera á þeirri skoðun að sá minnihluti sem væri á móti ætti að hafa neitunarvald.
„Á einhver örlítill grenjandi minnihluti að hafa neitunarvald um það að þjóðin megi stofna þennan þjóðgarð sinn á sínu eigin landi?“ spurði Steingrímur og lagði áherslu á að ríkur vilji hefði mælst hjá almenningi um að stofna ætti þjóðgarð á hálendinu. En hvernig hafa viðhorf almennings til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendinu mælst?
Lítill minnihluti réttnefni hjá Steingrími
Samkvæmt skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi árið 2018 voru tæp 10 prósent landsmanna ýmist mjög eða frekar andvíg því að stofnaður yrði miðhálendisþjóðgarður.
Tæplega 63 prósent sögðust frekar eða mjög hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og um 28 prósent sögðust ekki hafa á því skoðun sem hallaðist í aðra hvora áttina. Nánar má fræðast um niðurstöður viðhorfskönnunarinnar í meistaraverkefni Michaël Bishop í land- og ferðamálafræði, sem finna má á Skemmunni.
Munur á milli viðhorfa í höfuðborg og landsbyggðum
Meistaraverkefni Bishop hverfðist um að draga fram viðhorf þjóðarinnar til stofnun hálendisþjóðgarðs og kom í ljós í rannsókn hans að marktækur munur var á viðhorfum til stofnunar þjóðgarð á meðal mismunandi hópa í íslensku samfélagi.
Stuðningur við stofnun miðhálendisþjóðgarðs reyndist til dæmis meiri á höfuðborgarsvæðinu en í landsbyggðunum, en um 71 prósent höfuðborgarbúa sögðust styðja stofnun og um 47 prósent íbúa í landsbyggðunum. Á höfuðborgarsvæðinu mældist andstaðan að sama skapi einungis 6 prósent, en 17 prósent í landsbyggðunum.
Aukinn stuðningur frá fyrri könnunum
Fyrri kannanir sem gerðar hafa verið á viðhorfum þjóðarinnar til stofnun miðhálendisþjóðgarðs hafa einnig bent til þess að meirihluti landsmanna sé hlynntur hugmyndinni. Sá stuðningur hefur farið vaxandi á undanförnum árum.
Samkvæmt könnun Capacent Gallup frá árinu 2011 voru um 56 prósent þjóðarinnar hlynnt því að stofna þjóðgarð á miðhálendinu, en tæp 18 prósent lýstu sig andvíg slíkum hugmyndunum. Þá, rétt eins og í könnun Félagsvísindastofnunar 2018, var stuðningurinn mestur á höfuðborgarsvæðinu.
Önnur könnun sem Gallup gerði árið 2015 sýndi að stuðningur landsmanna við miðhálendisþjóðgarð var kominn yfir 61 prósent. Áfram mældist stuðningurinn meiri á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en íbúa landsbyggðanna.
Ekki full sátt um málið í þingliði ríkisstjórnarflokkanna
Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú gengið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, sem áður segir, en miðað við umræðurnar í þinginu í gær verða margvísleg sjónarmið uppi á borðinu í starfi nefndarinnar.
Bæði þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem sitja með Vinstri grænum í ríkisstjórn, hafa lýst yfir efasemdum um frumvarpið og gefið í skyn að þeir geti ekki stutt það í núverandi mynd, þrátt fyrir að málið sé í stjórnarsáttmála flokkanna þriggja og hafi verið samþykkt í ríkisstjórn.