Hálfgerð samfélagsmiðlabylting virðist hafin í samfélagi íslenskra fjallamanna. Á Facebook hafa fjölmargir birt myndir af sér á ferð um hálendi Íslands og lýst yfir andstöðu við frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð. Allt er þetta gert undir kassmerkinu #örlítillgrenjandiminnihluti.
Nú þegar er búið er að framleiða límmiða með íslenska fánanum og þessu slagorði, örlítill grenjandi minnihluti. Miðað við undirtektir í umræðuhópi fjallajeppamanna á Facebook er þess ekki langt að bíða að límmiðinn skreyti afturstuðara eða bílrúður breyttra bíla í umferðinni.
Með slagorðinu er vísað til orða Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis, sem féllu í þingræðu um frumvarpið á þriðjudagskvöld. Þar vísaði hann til þess að víðtækur almennur stuðningur væri á meðal landsmanna við að gera miðhálendið að þjóðgarði, þrátt fyrir að lítill hluti væri því andvígur.
Undirskriftasöfnun hefur verið í gangi undanfarna daga gegn áformum um Hálendisþjóðgarð og hafa rúmlega 11 þúsund manns sett nafn sitt á blað. Margir sem skrifa undir virðast hafa af því áhyggjur að stofnun þjóðgarðs muni þrengja að möguleikum þeirra til þess að ferðast að vild um hálendið.
Orð umhverfisráðherra um að þvert á móti sé með stofnun þjóðgarðsins verið að auka aðgengi þjóðarinnar að hálendinu gera lítið til þess að sefa ótta sem sumir hafa, um að þegar og ef þjóðgarður verði stofnaður muni ráðherra hafa það á sínu valdi að loka svæðum fyrir umferð í nafni náttúruverndar.
Ráðherra: „Óttist eigi“
Guðmundur Ingi sagði í Kastljósi á miðvikudagskvöld að þingmenn Miðflokksins hefðu farið með ítrekaðar rangfærslur um málið í ræðustól þingsins og sagðist setja spurningamerki við það þegar komin væri „hálfgerð upplýsingaóreiða inn í málið inni í sölum Alþingis.“
Í Kastljósi fullyrti Guðmundur Ingi einnig að ekki væri verið að fara að loka hálendinu fyrir fólki.
„Þjóðgarðar eru einmitt til að færa náttúruna að fólki, auka fræðslu um hana og auka aðgengi að henni. En það er vissulega stýring og ég held að allir geti verið sammála um það að við þurfum að auka landvörslu á þessum svæðum, auka fræðsluna, beina fólki á ákveðnar brautir innan þessara svæða til þess að draga úr álagi á náttúruna. Fáir þekkja mörg þessara svæða betur heldur en einmitt fólkið sem býst nær þeim og fólkið sem hefur verið að ferðast hvað mest á hálendinu, útivistarfólk.
Á sama tíma og ég skil að fólkið hafi áhyggjur af því að það sé verið að reyna að taka eitthvað af þeim þá segi ég, óttist eigi, því það er ekki það sem verið er að gera með þessu,“ sagði ráðherra.
Sérstök síða hefur verið sett upp af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem svör er að finna við algengum spurningum um efni frumvarpsins.
Óttast að ráðherra verði ráðríkur með reglugerðum
Kjarninn setti sig í samband við Kristinn Snæ Sigurjónsson, sem kom undirskriftasöfnuninni gegn þjóðgarðsáformum af stað. Hví þessi andstaða?
„Í okkar huga er þetta frekar einfalt. Það er verið að vera að vega að landsmönnum með þessum áformum,“ segir Kristinn Snær þegar blaðamaður spyr. Hann útskýrir að því meira sem fólk kynni sér frumvarpið komi betur og betur í ljós „hvað ráðherra á eftir að hafa mikil völd í þessu.“
„Að okkar mati er það ekki hægt í lýðræðislegu samfélagi að einn maður geti ráðið svo miklu landflæmi á þessu landi. Það er ekki boðlegt,“ segir Kristinn. Hann bætir við að þegar farið sé yfir frumvarpið komi í ljós það sé ýmislegt sem umhverfisráðherra hverju sinni sé ætlað að setja í reglugerðir.
„Alls kyns mál sem skipta miklu máli og okkur finnst að ráðherra einn ætti ekki að geta haft alvald um,“ bætir Kristinn Snær við, en eitt af því sem helst brennur á þeim sem mótmæla er kveðið á um í 18. gr. frumvarpsins og að lýtur að umferðarstýringu í þjóðgarðinum.
„Í reglugerð sem ráðherra setur skal setja reglur um dvöl, umgengni og umferð í Hálendisþjóðgarði, þ.m.t. tjöldun og umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda, sem og um umferð vélknúinna ökutækja, báta, skipa, loftfara, flygilda og hvers konar annarra farartækja í þjóðgarðinum,“ segir um þetta í frumvarpinu.
Ráðherra með tengsl við „náttúruverndar-öfgasamtök“
Blaðamaður spurði hvort orð ráðherrans dugi ekkert til að sefa ótta um að hann muni taka sér alræðisvald og loka svæðum ef honum dytti það í hug. Er ekki trú til staðar á því að mögulegar lokanir á einstaka svæðum eða slóðum verði einungis gerðar að ráðleggingum þeirra sérfræðinga sem fylgjast með ástandi náttúrunnar?
„Jú, eflaust verða þau með í ráðum. En ráðherra hefur lokaorðið. Eins og við vitum er hann tengdur hagsmunasamtökum. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og þau teljast, því miður, sem náttúruverndar-öfgasamtök,“ segir Kristinn Snær.
„Það er alveg sama hvert maður horfir í samfélaginu eða heiminum að öfgar eru aldrei af hinu góða. Það er staðan. Því miður erum við hrædd um það að þetta geri opnað á þann möguleika að öfgakenndir stjórnunarhættir gætu orðið að veruleika,“ bætir hann við.
Hann fullyrðir að andstaðan við frumvarpið sé ekki lítil, eins og sumir ráðamenn vilja meina, heldur mikil.
„Ég er fullviss um það að þingmennirnir í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki láta þetta ekki fara í gegn eins og þetta er. Við treystum algjörlega á þá til þess að vera með fæturnar á jörðinni í þessu máli,“ segir Kristinn einnig.
Ýmsir sárir út í forseta þingsins
Kristinn segir að margir hafi furðað sig á því að Steingrímur J. hafi notað orðfærið „örlítill grenjandi minnihluti“ er hann tjáði sig um málið á þingi í vikunni.
Einhverjum hafi sárnað, þrátt fyrir að síðan hafi vörn verið snúið í sókn með því að hefja umræður um málið undir áðurnefndu kassmerki.
„Þetta er skandall að forseti Alþingis láti svona út úr sér. Hann er í raun að gera lítið úr Alþingi með þessum ummælum. Hvernig eiga landsmenn að geta treyst þessari stofnun þegar forseti Alþingis talar svona um hluta landsmanna? Og ekkert lítinn hluta, þetta er mikið af fólki,“ segir Kristinn.
„Bara almennt, að tala niður til einhvers ákveðins þjóðfélagshóps. Þetta er skandall og ekkert annað. Hann virðist ekki skammast sín mikið fyrir þetta,“ bætir hann við.
Hefur ekki áhyggjur af fyrirvörum við málið
Frumvarp um Hálendisþjóðgarð gekk til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins á þriðjudagskvöld og fram hefur komið að þingflokkar bæði Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafa sett fyrirvara við samþykkt þess í óbreyttri mynd.Umhverfis- og auðlindaráðherra ráðherra sagðist þó ekki hafa áhyggjur af því að þjóðgarðsmálið dagaði uppi í nefndinni, er hann var spurður í Kastljósi hvort hann teldi líklegt að það kæmist í gegnum þingið.
„Ég hef nú áður fengið fyrirvara á mál sem ég hef farið með í þingið og við höfum leyst úr því. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu,“ sagði Guðmundur Ingi.