Samkeppniseftirlit Bandaríkjanna kærði samfélagsmiðilinn Facebook fyrir brot á samkeppnislögum þar í landi í gær. Eftirlitið sagðist búast við að miðillinn þyrfti að losa sig við Instagram og WhatsApp.
Samkvæmt frétt frá breska blaðinu Financial Times sakar samkeppniseftirlitið Facebook um að hafa stundað „samkeppnishamlandi viðskiptahætti um árabil.“ Þessir viðskiptahættir fælu meðal annars í sér yfirtökur á öðrum fyrirtækjum sem ógnuðu markaðsráðandi stöðu miðilsins og takmörkun á þjónustu sem gæti nýst öðrum keppinautum.
Eftirlitið nefnir sérstaklega samfélagsmiðlana Instagram og WhatsApp, sem fyrirtækið keypti árin 2012 og 2014, en samkvæmt Financial Times búast yfirvöld við því að málið endi á því að Facebook losi sig við báða miðlana.
Betra að kaupa en að keppast við
Í kærunni er endurtekið vísað í tölvupóstasamskipti Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, við samstarfsmenn sína. Í einum þeirra sagði hann að það væri „betra að kaupa heldur en að keppast við“ önnur fyrirtæki, en í öðru viðurkenndi hann að samskiptaforritið WhatsApp væri betra en samskiptahluti Facebook, Messenger, og að það væri ómögulegt að draga úr því forskoti.
Einnig er vísað í aðra tölvupósta starfsmanna Facebook eftir stuttu eftir kaupin á WhatsApp, þar sem yfirtökunni á „hugsanlega eina fyrirtækinu sem hefði getað orðið næsta Facebook á farsíma“ var fagnað.
Misnota stöðu til að krefjast upplýsinga
Samkvæmt samkeppniseftirliti Bandaríkjanna hefur markaðsráðandi staða Facebook komið illa niður á notendum þess, jafnvel þótt þeir þurfi ekki að borga fyrir þjónustuna. Öllu heldur hefði miðillinn notað stöðu sína til að krefjast þess að notendur hans gæfu frá sér fleiri persónuupplýsingar en þeir hefði annars gert ef meiri samkeppni væri á milli samfélagsmiðla.
Bæði kaupin samþykkt á sínum tíma
Facebook sendi frá sér tilkynningu stuttu eftir að ákæran var gerð opinber, en í henni sakar yfirlögfræðingur fyrirtækisins, Jennifer Newstead, yfirvöld um að ganga gegn eigin ákvörðunum, þar sem bæði kaupin gegn Instagram og Whatsapp voru samþykkt á sínum tíma.
Newstead segir að vinsældir beggja forritanna væru Facebook að þakka. „Þegar Facebook keypti Instagram var heildarfjöldi notenda þess einungis tvö prósent af því sem hann er í dag, með einungis 13 starfsmenn, engar tekjur og í rauninni enga eigin innviði,“ bætti hún við.