Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að skýra betur hver nákvæmlega stefna Íslands um samdrátt í losun fram til ársins 2030 sé, þegar hún ávarpar leiðtogafund um loftslagsmál sem Sameinuðu þjóðirnar, Bretland og Frakkland standa að á morgun.
Samtökin kalla eftir því að Katrín setji fram töluleg markmið Íslands „refjalaust“, en ekki óljós markmið sem háð séu samningum við Evrópusambandið, um til dæmis 40-46 prósent minni losun árið 2030 miðað við 1990, eins og forsætisráðherra nefndi í samtali við Vísi í gær.
„Loftslagsstefna íslenskra stjórnvalda verður að vera miklu gagnsærri og skýrari. Það er engin von til að stjórnsýsla loftslagsmála skýrist þegar ekki er ljóst hvað stjórnvöld vilja,“ segir Árni Finnsson, formaður samtakanna í samtali við Kjarnann.
Í fréttatilkynningu samtakanna er bent á að í febrúar hafi Noregur endurnýjað fyrirheit sín og norsk stjórnvöld stefni nú á 50 prósent samdrátt, að lágmarki, árið 2030 miðað við 1990. Á sama tíma sé margt óljóst um markmið Íslands og stefnu í loftslagsmálum.
„Óboðlegt“ að ekki sé skýrt hvað kolefnishlutleysi 2040 þýði
„Það er til dæmis ekki ljóst hvað kolefnishlutleysi 2040 þýðir. Og hvað eiga embættimenn þá að gera?“ spyr Árni, en auk þess að kalla eftir skýrum tölum um hvað Ísland ætli sér að minnka losun mikið segja samtökin að stjórnvöld verði að lögfesta markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.
Þau segja það hreinlega „óboðlegt“ að ríkisstjórnarflokkarnir fari inn í kosningabaráttu næsta árs „án þess að kjósendur séu nokkru nær um hvað hugtakið eða stefnan feli í sér,“ en Árni á sæti í loftslagsráði, sem hefur hvatt stjórnvöld til þess að lögfesta hugtakið.
Í fréttatilkynningu samtakanna segir að ef „kolefnishlutleysi árið 2040“ sé ekki skilgreint samkvæmt íslenskum lögum sé ekki hægt að vita hvað stjórnvöld hyggjast fyrir og bent er á að þónokkur ríki hafi þegar lögfest kolefnishlutleysi.