Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, sækist eftir því að leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum, sem eiga að fara fram næsta haust. Frá þessu var fyrst greint á Vísi í dag en Guðmundur staðfestir þetta í samtali við Kjarnann.
„Ég er allavega genginn í flokkinn,“ segir Guðmundur, sem segir það stórt skref fyrir mann sem hafi ekki verið hluti af stjórnmálaafli áður. Hann segist bjóða fram krafta sína og að hann hafi lýst yfir vilja til þess að fara í framboð í Norðvesturkjördæmi, en svo muni uppstillingarnefnd Viðreisnar leggjast yfir það „hverjir gefa sig í bardagann“ og hvernig listinn eigi að vera.
Hann segist treysta uppstillingarnefndinni algjörlega til þess að meta hvernig árangri verði best náð. „Ég er með metnað og ef það væri í mínum höndum að ráða þessu þá myndi ég fara sem efst,“ segir Guðmundur.
Guðmundur hefur látið nokkuð til sín taka í opinberri umræðu frá því að hann lét af störfum sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og orðrómar verið á kreiki um að hann ætlaði sér að bjóða sig fram til stjórnmálastarfs.
Kaus Viðreisn í síðustu kosningum
Spurður hvort aðrir stjórnmálaflokkar en Viðreisn hafi komið til greina eftir að hann ákvað að stíga það skref segir Guðmundur að hann hafi talið heiðarlegt gagnvart sjálfum sér og öðrum að skoða þau mál gaumgæfilega. Hann hafi þannig bæði skoðað stefnur flokka og rætt við fólk.
Innst inni hafi hann þó alltaf vitað að Viðreisn yrði fyrir valinu. „Þetta er nú flokkurinn sem ég kaus í síðustu kosningum,“ segir Guðmundur við blaðamann.
Hraktist frá Ísafirði eftir starfslok í kjölfar snjóflóða
Starfslok Guðmundar sem bæjarstjóra á Ísafirði fyrr á árinu vöktu mikla athygli, ekki síst þar sem hann hafði verið áberandi í fjölmiðlum í aðdraganda þeirra vegna snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og Súgandafirði í febrúar.
Í viðtölum við fjölmiðla lýsti hann því yfir að sjálfstæðismenn í meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðar hefðu ekki stutt hann í starfi, en hann var ráðinn þangað sem ópólitískur bæjarstjóri. Í samtali við Mannlíf sagði Guðmundur að það hefði skapast sérstakur ágreiningur um hlutverk sitt sem bæjarstjóra og sýnileika í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og í Súgandafirði um miðjan janúar. Sá ágreiningur varð til þess að upp úr sauð.
Guðmundur sagði að meirihlutinn hefði lýst yfir óánægju með það hvernig hann hefði komið upplýsingum til þeirra og að hann hefði ekki sinnt kjörnu fulltrúunum nægilega mikið á þessum tíma. Til átaka kom á bæjarstjórnarfundi 17. janúar þar sem Guðmundur rauk á endanum á dyr. Hann sagði að hlutirnir hefðu farið að „snúast um kjánalega hluti eins og hver ætti að taka á móti forsætisráðherra og hver ætti að fara í þyrluna og eitthvað svona bull.“
Í kjölfarið á starfslokunum flutti Guðmundur frá Ísafirði með fjölskyldu sinni og búa þau nú í Kópavogi, þrátt fyrir að eiga sínar rætur fyrir vestan, en Guðmundur er uppalinn í Bolungarvík.
Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hann meðal annars: „Hér líður okkur ekki lengur vel. Atburðir síðustu vikna hafa gert það að verkum. Ekki síst þær furðuskýringar sem grasserað hafa í kjölfar starfslokanna. En þetta er eins og það er. Við sjáum sæng okkar upp reidda og viljum ekki vera hluti af samfélagi þar sem fyrirferðamiklar stjórnmálahreyfingar umbera fantabrögð freka kallsins og dreifa svo rógburði til að réttlæta þau.“