Íþróttafélögin í landinu munu fá sérstakan fjárstuðning til að standa straum af launagreiðslum bæði verktaka og hefðbundinna launamanna sem ekki geta stundað störf sín vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, samkvæmt breytingartillögu meirihluta velferðarnefndar við frumvarp félags- og barnamálaráðherra um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldursins.
Aðalbreytingin frá upprunalegu frumvarpi er sú að íþróttafélögin í landinu fái fé úr ríkissjóði til að greiða allt 70 prósent af reikningum hvers verktaka sem starfar fyrir félagið, til dæmis við þjálfun eða keppni í íþróttum, á því tímabili sem starfsemi íþróttafélaga liggur niðri vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, frá 1. október 2020 til 30. júní 2021.
Í upphaflegu frumvarpi ráðherra var ekki gert ráð fyrir því að félög fengju greiðslur fyrir launakostnað starfsmanna sem vinna í verktöku, heldur einungis hefðbundna launamenn.
Í starfi velferðarnefndar kom hins vegar fram að í um 20-30 prósent tilfella væru þjálfarar og aðrir sem sinna íþróttastarfi hlutastarfsmenn sem fái verktakagreiðslur. Þótti nefndinni mikilvægt að frumvarpið næði til allra starfsmanna íþróttafélaga.
Meirihluti nefndarinnar áréttar sérstaklega í nefndaráliti sínu að þessu frumvarpi er ekki ætlað að ná til þeirra launamanna íþróttafélaga sem starfað hafa í ótímabundnum störfum, sem reglugerðir heilbrigðisráðherra sem takmörkuðu íþróttastarf höfðu ekki áhrif á, svo sem skrifstofufólks.
Gert ráð fyrir 470 milljóna kostnaði
Í upphaflegu mati á áhrifum frumvarpsins var gert ráð fyrir að greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar myndu nema um 500 milljónum króna vegna tímabilsins 1. október 2020 til 30. júní 2021. Í því mati var gengið út frá þvi að íþróttastarf myndi ekki þurfa að sæta eins miklum takmörkunum eftir áramót og það hefur gert í haust.
Í breytingatillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlög ársins 2021 var gert ráð fyrir 470 milljón króna útgjöldum „til stuðnings íþróttafélögum vegna rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir koma í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna.“
Allt skipulagt íþróttastarf lá niðri um hríð eftir að hertar sóttvarnaráðstafanir yfirvalda tóku gildi, einnig hjá börnum. Síðan hefur börnum 15 ára og yngri verið leyft að æfa á ný, en þeir sem eldri eru sátu eftir í þeim tilslökunum sem kynntar voru í síðustu viku.
Nú er staðan sú að einungis íþróttalið sem keppa í efstu deildum hafa heimild til þess að æfa, auk þess sem afreksíþróttafólk í einstaklingsíþróttum má stunda sitt sport. Öll íþróttakeppni fullorðinna í landinu er enn óheimil.
Vill sjá ríkið taka meira undir með félögunum
Í breytingartillögu meirihluta nefndarinnar kemur fram að lagt sé að ríkið greiði 70 prósent af launum verktaka til þess að ekki gæti misræmis milli þeirrar upphæðar sem ríkið greiði íþróttafélagi fyrir launamann í starfi og fyrir verktaka í starfi.
Þar sem launagreiðanda sé skylt að greiða launatengd gjöld launamanns, eins og iðgjöld lífeyrissjóðs, tryggingagjald og sjúkrasjóð, á meðan að verktaki greiðir slík gjöld sjálfur, þótti meirihlutanum rétt að miða við 70 prósent greiðslur til launamanna.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar vill ganga lengra í greiðslum til íþróttafélaganna. Hún leggur til í eigin breytingartillögu að ríkið taki á sig greiðslur bæði launa og launatengdra gjalda launamanna og að 90 prósent af greiðslum íþróttafélaga til verktaka á meðan íþróttastarf er bannað komi úr ríkissjóði.
Sumir foreldrar hugsi
Kjarninn hefur að undanförnu fengið nokkrar ábendingar frá foreldrum barna sem eru í skipulögðu íþróttastarfi þess efnis að íþróttafélög sem hafa ekki getað boðið upp á æfingar sem búið var að greiða fyrir í haust hyggist ekki endurgreiða æfingagjöld, þrátt fyrir að sú þjónusta sem greitt hafi verið fyrir hafi ekki verið veitt.
Blaðamaður beindi fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 18. nóvember sl. og spurði hvort einhverrar stefnumörkunar væri að vænta um hvernig skyldi fara með slík mál, en svör hafa ekki borist.